Hagstofan hefur beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem mistök í talningu gætu hafa valdið, þar sem fimm þúsund manns voru ranglega talin starfsmenn ríkisstofnana í opinberum gögnum Hagstofunnar.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann að málið hafi komið upp eftir að hann óskaði eftir tölum stofnunarinnar um umsvif á vinnumarkaði í júlí.
„Við sérvinnslu Hagstofu Íslands fyrir forsætisráðuneytið um tölur um fjölda starfandi eftir rekstrarformi kom í ljós að opinberar hagtölur um fjölda starfandi í ríkisstofnunum voru ofmetnar þar sem einstaklingar sem voru í fæðingarorlofi frá vinnu voru skilgreindir sem starfsfólk ríkisstofnana í stað þess að vera skilgreindir í því rekstrarformi sem þeir unnu í áður en þeir fóru í fæðingarorlof,“ segir í tilkynningu frá Hagstofunni.
Hagstofan vinnur nú að því að lagfæra það talnaefni sem er ranglega talið. Það nær eingöngu til fjölda starfandi eftir rekstrarformum en ekki annars talnaefnis svo sem eftir atvinnugreinum.
„Fyrir vikið hefur umrætt talnaefni verið tekið úr birtingu á meðan unnið er að leiðréttingu.“