Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hefur þekkst boð um að verða verndari Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grænvangi en Halla greindi frá þessu í heimsókn hennar og Friðriks X, Danakonungs til State of Green og Dansk Industri fyrr í dag.
Heimsóknin var hluti af dagskrá viðskiptasendinefndar Íslands, sem fylgir forsetanum í hennar fyrstu opinberu heimsókn til Kaupmannahafnar sem stendur nú yfir. Í viðskiptasendinefndinni eru fulltrúar um 50 íslenskra fyrirtækja sem tóku þátt í viðskiptaþingi með fulltrúum danskra fyrirtækja þar sem meðal annars var rætt um orkumál, grænar lausnir og samstarf þjóðanna.
Grænvangur á sér skýra fyrirmynd í hinu danska State of Green en þess má geta að Friðrik X, Danakonungur, er verndari State of Green og hefur verið frá stofnun þess vettvangs árið 2008.
„Ég hef áður sagt að farsælast sé að kalla ólíka saman, spyrja spurninga og hlusta á fjölbreytt sjónarmið. Það er keppikefli allra þjóða að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður. Það er stórt verkefni sem verður ekki leyst nema að við höfum hugrekki til að fara nýjar leiðir, tala saman og vinna saman þvert á greinar, þjóðir og kynslóðir.
Það er mér sérstakt ánægjuefni að verða verndari Grænvangs, sem hefur það hlutverk að leiða saman stjórnvöld og atvinnulíf í að greina og skilja vandann og sóknarfærin og virkja kraftinn í samstarfinu,“ segir Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.
Grænvangur var stofnaður árið 2019 sem samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Bakland Grænvangs samanstendur af íslenskum stjórnvöldum og leiðtogum atvinnulífsins í loftslagsmálum. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.