Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að ákvörðun matvælaráðuneytisins og Byggðastofnunar um að ekki standi til að vera með frekari undanþágur frá vinnsluskyldu vegna úthlutunar á sértækum byggðakvóta til Grímseyjar vera hrikalegt bakslag fyrir byggð í eyjunni.
„Aðeins tveir aðilar uppfylla skilyrðin og því ríkir algjört upplausnarástand í eyjunni. Aðrir sem vilja fá þennan sértæka byggðakvóta þurfa að koma upp vinnslu úti í eyjum með tilheyrandi kostnaði, mannskap, sem ekki er til staðar, og flytja hann í land með ferjunni með enn meiri kostnaði, ferju sem ekki alltaf er til staðar,“ sagði Ingibjörg undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hún benti á að staðan í Grímsey væri þannig að líklega væri hluti íbúa að horfa nú til flutnings.
„Þessi ákvörðun vekur furðu þar sem hún er hrikalegt bakslag fyrir byggð í Grímsey,“ sagði hún og bætti við að þrátt fyrir að Grímsey væri ekki lengur þátttakandi í verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir þá væri byggðin enn brothætt.
„Eftir mörg hundruð ára sögu um búsetu í eyjunni er hún mögulega að líða undir lok og það er á okkar ábyrgð. Það er sorglegt að sjá okkur taka skref aftur á bak hvað varðar stuðning ríkisins við brothættar byggðir í landinu því að þegar öllu er á botninn hvolft er það ákvörðun að halda byggð í landinu, halda byggð í öllu landinu,“ sagði Ingibjörg.