Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin sé komin að endimörkum. „Það er upplausn í samstarfinu og það hefur blasað við öllum í marga mánuði.“
Þetta sagði Logi undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hann bætti við að Vinstri græn hefðu „einfaldlega rifið í handbremsuna varðandi stærstu mál Sjálfstæðisflokksins; útlendingamál, frekari orkuöflun og það er hægt að telja ýmislegt annað.“
Logi sagði að Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði áttað sig á þessu og talað skýrt um þessi mál í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
„Þar segir hann hingað og ekki lengra, að langlundargeðið sé þrotið og jafnframt að hann sjái eftir því að hafa ekki gengið enn lengra en að segja af sér starfi þingflokksformanns í kjölfar þess að þáverandi matvælaráðherra og núverandi formaður VG stöðvaði hvalveiðar í óþökk margra stjórnarliða; ákvörðun sem hún var snupruð fyrir af fyrrverandi umboðsmanni Alþingis,“ sagði Logi.
Hann bætti við, að almenningur gæti einfaldlega ekki búið við þrjár ólíkar ríkisstjórnir í landinu á sama tíma.
„Nú verða þessir flokkar þrír einfaldlega að pakka saman, slíta samstarfinu og boða til kosninga áður en þeir valda enn þá meira tjóni fyrir þjóðina.“