„Löngu tímabært að ráðast í þessar framkvæmdir“

Búið að malbika og merkja bílaplönin við Reynisfjöru.
Búið að malbika og merkja bílaplönin við Reynisfjöru. Ljósmynd/Aðsend

Búið er að malbika og merkja bílastæðin við Reynisfjöru. Fjaran er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og dregur að sér fjölda ferðamanna á hverju ári.

„Undanfarin ár hefur verið mikið kraðak á bílastæðunum hjá okkur og aðstæður hreinlega hættulegar fyrir gangandi vegfarendur og erfitt fyrir rútur að athafna sig. Það var því orðið löngu tímabært að ráðast í þessar framkvæmdir,“ segir Íris Guðnadóttir, einn landeigenda á svæðinu, við mbl.is.

Gjaldtaka síðasta sumar

Hún segir að landeigendur hafi tekið sig saman og ákveðið að ráðast í þessa framkvæmd en fyrst hafi þurft að safna fyrir henni áður en farið var af stað. Hófu landeigendur gjaldtöku við bílastæðin síðasta sumar.

„Við hófum að skipuleggja þetta á vormánuðum. Þá hófst hönnunarvinna, ræða við verktaka og þess háttar. Í kjölfarið fór af stað undirvinna þar sem efni var keyrt á staðinn. Planið var svo malbikað síðastliðinn föstudag og á mánudaginn var farið í merkingar. Í gær var síðan opnað fyrir umferð inn á planið.“

Íris segir að nú sé aðeins eftir lokafrágangur sem hafi þó ekki áhrif á umferð. Til að mynda þurfi að lagfæra skilti sem mörg hver eru orðin sandblásin.

Opnað var fyrir umferð inn á nýja bílaplanið við Reynisfjöru …
Opnað var fyrir umferð inn á nýja bílaplanið við Reynisfjöru í gær. Ljósmynd/Aðsend

Sjónarspilið magnað 

„Við ákváðum að útbúa smá útsýnispall á fjörukambinum sem er staðsettur við viðvörunarskiltin og ljósin sem sýna grænt, gult og rautt. Þegar það er rautt ljós þá á fólk að stöðva á fjörukambinum og við bjuggum til pláss þar. Sjónarspilið þar er magnað í miklu brimi og á þessum stað nær fólk góðum myndum og er í öruggri fjarlægð,“ segir Íris.

Hún segir að við útsýnispallinn sé aðgengi fyrir hreyfihamlaða og hægt sé að komast í hjólastól út á pallinn.

Búið er að koma fyrir útsýnispalli á fjörukambinum.
Búið er að koma fyrir útsýnispalli á fjörukambinum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert