Birta Hannesdóttir
Fundi í kjaraviðræðum aðildarfélaga Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk klukkan hálf sjö í kvöld. Boðað hefur verið til næsta fundar á þriðjudag.
Þetta segir Aldís Magnúsdóttir sáttasemjari í samtali við mbl.is.
Kennarar greiða nú atkvæði um hvort grípa eigi til verkfallsaðferða í átta skólum síðar í þessum mánuði. Atkvæðagreiðslunni lýkur á morgun.
Verði verkfallsboðunin samþykkt hefjast verkföll á miðnætti 29. október.
Verkföllin ná til fjögurra leikskóla, þriggja grunnskóla og eins framhaldsskóla. Ekki hefur verið greint frá því hvaða skóla um ræðir og verður það ekki gert nema kennarar samþykki verkfallsboðunina.
Áformað er að verkföllin verði tímabundin í grunnskólum og framhaldsskólum en ótímabundin í leikskólum.