Netþrjótar í skjóli í miðborg Reykjavíkur

Þjónustan býður fólki upp á að fara huldu höfði á …
Þjónustan býður fólki upp á að fara huldu höfði á netinu. Í umfjöllun New York Times segir að þetta geri m.a. glæpahópum kleift að stunda sína iðju í skjóli. Ljósmynd/Colourbox

Bandaríska dagblaðið New York Times fjallar ítarlega í dag um það hvernig margar vafasamar vefsíður eigi rætur að rekja til skrifstofuhúsnæðis við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur.

Blaðið segir frá því að þar sé að finna einhvers konar stafrænt heimili, eða aflandssvæði, glæpahópa sem stundi meðal annars auðkennisþjófnað, gagnagíslatöku, dreifa falsfréttum og stunda fjársvik. 

Á vefsíðu Witheld for Privacy sést hvar fyrirtækið er með …
Á vefsíðu Witheld for Privacy sést hvar fyrirtækið er með uppgefið aðsetur. Skjáskot

Veita fullkomna nafnleynd

Í umfjöllun blaðsins segir að umrætt húsnæði hýsi meðal annars Reðasafnið, en um sé að ræða Kalkofnsveg 2 þar sem fyrirtækið Witheld for Privacy hafi aðsetur. Það sé hluti af blómstrandi iðnaði sem sæti ekki neinu eftirliti en fyrirtækið geri fólki kleift að starfrækja lén á vefnum án þess að það komi fram hver standi á bak við vefsvæðið. Veiti fullkomna nafnleynd.

Tekið skal fram að Reðasafnið er ekki bendlað við þessa starfsemi í umfjölluninni. Aðeins að það sé í sama húsnæði sem vakti athygli blaðamanna. 

New York Times bendir á að þrátt fyrir að það sé algengt að margir eigendur vefsíðna reyni að verja sig gagnvart áreitni eða ruslpósti, þá hafi þessi þjónusta einnig hjálpað öðrum að hylja sín spor á netinu gagnvart eftirlitsaðilum, lögregluembættum eða fórnarlömbum. 

Íslenskum lögregluyfirvöldum hefur reynst erfitt að ná á forsvarsmenn fyrirtækisins …
Íslenskum lögregluyfirvöldum hefur reynst erfitt að ná á forsvarsmenn fyrirtækisins vegna mála sem hafa komið upp þrátt fyrir að það sé með skráða skrifstofu í miðborg Reykjavíkur. Ljósmynd/Colourbox

Ísland alþjóðleg höfn fyrir ólöglega starfsemi

Blaðið fullyrðir að Witheld for Privacy, og aðrar svipaðar þjónustur, hafi breytt Íslandi í alþjóðlega höfn fyrir ólöglega starfsemi, sem teygi sig langt umfram stærð landsins.

Namecheap stofnaði fyrirtækið árið 2021, en Namecheap er einn af stærstu útgefendum vefsíðna á netinu. Fullyrt er frá því að Witheld for Privacy hafi veitt tugþúsundum vafasamra vefsíðna skjól og tekið er fram að íslensk lögregluyfirvöld hafi greint frá því að þeim hafi ekki tekist að ná í fulltrúa fyrirtækisins þegar vandamál hafa komið upp. 

Witheld for Privacy er með skrifstofu við Kalkofnsveg 2 í …
Witheld for Privacy er með skrifstofu við Kalkofnsveg 2 í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rannsakendur rákust á Reðasafnið

Í umfjölluninni er sagt frá því að rannsakendur við Syracuse-háskóla í Bandaríkjunum hafi verið að skoða villandi auglýsingar á Facebook og Instagram þegar þeir hafi rekist á Reðasafnið er þeir voru að reyna að hafa uppi á eigendum vefsíðu sem hefur varið um 1,3 milljónum dala (um 175 milljónum kr.) í villandi auglýsingar. En auglýsingunum var sérstaklega beint að stuðningsfólki Donald Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda repúblikana.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefur sagt að þessi starfsemi væri …
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefur sagt að þessi starfsemi væri bæði galin og siðlaus. mbl.is/Hallur Már

Vararíkissaksóknari varaði við þessari starfsemi

Fyrir tveimur árum fjallaði Kjarninn um færslu sem Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari birti á Facebook, þar sem hann sagði frá því að íslenskum yfir­völdum bærust stundum rétt­ar­beiðnir erlendis frá vegna rann­sókna á net­glæpum af ýmsu tagi, en gætu lítið brugð­ist við, þar sem hér á landi fjaraði slóðin hrein­lega út og endaði hjá fyr­ir­tækjum sem reka án laga­legra tak­mark­ana inter­net­þjón­ustur sem tryggja við­skipta­vinum um allan heim fulla nafn­leynd.

Helgi Magnús sagði m.a. í færslunni að Ísland væri með „vett­vang fyrir glæpa­menn, í tún­fæt­inum hjá okk­ur, til að fremja glæpi sína undir nafn­leynd“. Hann sagði að þetta væri galið og siðlaust. 

Í fyrrgreindri umfjöllun Heimildarinnar var einnig fjallað um skrifstofuhúsnæðið við Kalkofnsveg 2 í Reykjavík þar sem Witheld for Privacy er til húsa. Það sé rekið undir íslenskri kenni­tölu, skráð með skrif­stofu og síma­núm­er, en lík­lega væri um að ræða svo­kall­aða fjar­skrif­stofu.

Fólk getur falið sig á vefnum með aðstoð fyrirtækja á …
Fólk getur falið sig á vefnum með aðstoð fyrirtækja á borð við Withheld for Privacy. Ljósmynd/Colourbox

Tengist þjóðernissinnum, svindlsíðum og rússneskum hópum sem dreifa falsefni

New York Times segir frá því að skrifstofan í Reykjavík tengist m.a. spjallsvæðum á netinu sem tengjast hópum hvítra þjóðernissinna, svindlsíðum sem þykist vera þekktar vefsíður á borð við Amazon og Spotify þar sem reynt er að komast yfir fjármuni og persónulega upplýsingar notenda. Þá er einnig vísað til rússneskra hópa sem vinni að því að dreifa falsfréttum til bandarískra ríkisborgara. 

Í fréttinni er m.a. rætt við Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar, sem segir í samtali við NY Times að þessi fyrirtæki séu að misnota sér veikleika Íslands sem opið lýðræðissamfélag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert