Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlar ekki að sekta ökumenn fyrir notkun nagladekkja, enda vetrarfærð í borginni.
„Þess ber þó að geta að þótt það sé hálka í dag er ekki endilega hálka á morgun og því betra að seinka notkun nagladekkja eins og hægt er - eða nota önnur og umhverfisvænni dekk,“ segir á Facebook-síðu lögreglunnar.
Einnig er velt upp þeirri spurningu hvort nagladekk séu lögleg utan tiltekinna dagsetninga eða ekki. Reglugerðin sé skýr með dagsetningunum 31. október til 15. apríl en þær séu ákveðin viðmið. Utan þeirra daga megi nota nagladekk ef aðstæður krefjist þess.
Í færslunni er bætt við að hálkan í morgun og snjór á aðliggjandi heiðum þýði að eðlilegt sé að hefja notkun nagladekkja.