Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi verið pólitískur dónaskapur af hálfu formanns Vinstri grænna að tala um kosningar í vor án samráðs við formenn hinna stjórnarflokkanna.
Svandís Svavarsdóttir, nýkjörinn formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við mbl.is um helgina að það skuli stefnt að kosningum í vor.
Ásmundur kveðst finna fyrir mjög mikilli þreytu meðal sjálfstæðismanna sem finnist þeir vera skildir eftir í samstarfinu. Krafa sé uppi um það að verkefnin sem ríkisstjórnin ætlaði sér að klára verði kláruð.
Finnst þér eðlilegt að formaður í ríkisstjórn skuli stíga fram og segja svona án þess að vera búinn að ræða við hina formennina?
„Mér þetta náttúrulega bara pólitískur dónaskapur að ráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sé að ákveða hvenær samstarfinu eigi að ljúka vegna þess að þingrofsrétturinn er í höndum forsætisráðherra.
Það á auðvitað að koma í hans hlut að tilkynna hvenær kosningar fara fram. Þannig mér fannst það skot vera hátt yfir markið,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is.
Óli Björn Kárason skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann segir útilokað að réttlæta samstarf með Vinstri grænum.
„En nú er langlundargeð mitt endanlega þrotið. Framganga Vinstri grænna er með þeim hætti að útilokað er að réttlæta samstarf við þá í ríkisstjórn,“ skrifaði hann.
Tekur þú undir skrif Óla?
„Ég tek undir það að í pólitík – eins og í öðru – þá verðum við að standa við þau orð sem við gefum og þá samninga sem við gerum. Ég set merkimiða við það og treysti því að formaður flokksins vinni þannig úr þessum málum að það samkomulag sem er í gildi – við töldum að væri í gildi – að við það verði staðið. Þau mál sem var búið að samþykkja að færu í gegnum þingið, að þau klárist. Ef ekki þá er þetta ekki á vetur setjandi,“ segir Ásmundur.
Svandís hefur sagt að hún vilji ekki frekari breytingar á útlendingalögum en Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er hins vegar með útlendingafrumvörp á sinni þingmálaskrá.
Spurður hvort að honum finnist að það eigi að slíta samstarfinu nái þessi mál ekki fram að ganga segir Ásmundur:
„Við fórum í ákveðna vegferð við breytingar á útlendingalögum sem dómsmálaráðherra hefur leitt af miklum skörungsskap og hún er í miðri á með það. Það verkefni verður bara að klárast. Ég sé enga aðrar leið en að verkefnið klárist. Upp á það voru allir samstarfsflokkarnir búnir að kvitta og það er sú lína sem mér finnst að við eigum að halda,“ segir Ásmundur.