Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar, segir sérstakt að tala um kosningar næsta vor aðeins nokkrum mánuðum eftir að samið var um annað. Hann segir einnig sérstakt að Vinstri grænir vilji fá að hafna útlendingamálunum alfarið en „segja svo að við þurfum að tala okkur niður á niðurstöðu í hinum.“
Þetta segir Stefán í samtali við mbl.is.
Svandís Svavarsdóttir, nýkjörinn formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við mbl.is um helgina að stefnt skuli að kosningum í vor. Stefán segir að þegar stjórnin hafi verið endurnýjuð í apríl þá hafi verið tekin ákvörðun um haustkosningar 2025.
„Það er svolítið sérstakt að koma fram nokkrum mánuðum seinna og tala í þveröfuga átt. Stóra verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna varðandi að ná niður verðbólgu og þar með vaxtastigi í landinu, það þarf ekki á einhverjum óstöðugleika að halda í kringum kosningar,“ segir Stefán.
Þegar ríkisstjórnin var endurnýjuð undir forystu Bjarna Benediktssonar var lagt upp með þrjú forgangsmál. Það voru efnahagsmálin, útlendingamálin og orkumálin.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur sagt að hún telji að frumvörp um frekari breytingar á útlendingalögunum eigi ekki erindi inn á þingið.
Spurður hvort að honum finnist Svandís vera að svíkja það sem um var samið segir Stefán að hann þurfi að skoða þessi mál nánar en:
„Horfandi á þetta utan frá að þá er það svolítið sérstakt að taka einhver mál út fyrir og segja svo að við þurfum að tala okkur niður á niðurstöðu í hinum. Það hlýtur að vera eðlilegt að tala sig niður á niðurstöðu í öllum þeim málum sem ríkisstjórnin ætlaði að vinna að fram á haustið 2025.
Ég skal alveg viðurkenna að það er svolítið sérstakt en við skulum sjá þegar oddvitar þessara flokka setjast niður og tala saman hver niðurstaðan verður. Maður bíður bara eftir henni,“ segir Stefán.