Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst styðja ríkisstjórnina en segir að ummæli formanns Vinstri grænna, um að ekki ætti að gera frekari breytingar á útlendingalögum, séu verulega vanhugsuð.
Telur hún að ef ríkisstjórnin geti ekki komið sér saman um málefnin sem samið var um við endurnýjun í vor þá sé allt eins gott að slíta samstarfinu.
„Ég styð þessa ríkisstjórn og hef stutt þessa ríkisstjórn til góðra verka. Það er ekki langt síðan við endurnýjuðum heitin og settum ákveðin mál á dagskrá. Þess vegna hef ég haft trú á því að ef við getum klárað þessi mál þá sé full ástæða fyrir ríkisstjórnina að klára sitt kjörtímabil og vinna þau verkefni sem enn eru óunnin,“ segir Bryndís í samtali við mbl.is og bætir við:
„En það segir sjálft að ef fólk er ekki tilbúið að flykkja sér saman um þessi verkefni og klára þau, þá er auðvitað allt eins gott að slíta ríkisstjórninni.“
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur sagt að hún telji að frumvörp um frekari breytingar á útlendingalögunum eigi ekki erindi inn á þingið. Ríkisstjórnin var mynduð utan um efnahagsmálin, útlendingamál og orkumál.
Spurð hvort ríkisstjórnin sé komin á endastöð í ljósi ummæla Svandísar segir Bryndís:
„Ég held að þau ummæli Svandísar Svavarsdóttur hafi verið verulega vanhugsuð og ég held að það sé mikilvægt að horfa á málaflokkinn í heild sinni, hversu kvikur hann er og nauðsyn þess að við bregðumst við þegar á þarf að halda.“
Óli Björn Kárason skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann segir útilokað að réttlæta samstarf með Vinstri grænum.
„En nú er langlundargeð mitt endanlega þrotið. Framganga Vinstri grænna er með þeim hætti að útilokað er að réttlæta samstarf við þá í ríkisstjórn,“ skrifaði hann.
Bryndís kveðst ætla að eftirláta oddvitum stjórnarflokkanna að eiga samtal um það hvernig eigi að ná saman um málefnin og hvernig sé hægt að ljúka verkefnunum sem eru fyrir hendi.
Hún segir að uppi séu ýmsar tilfinningar og vangaveltur hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans í kjölfar landsfundar VG og „þeirra yfirlýsinga sem sumir þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna hafa látið eftir sér“.