Vantrauststillaga gegn sveitarstjóra felld

Hólmavík.
Hólmavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Vantrauststillaga gegn Þorgeiri Pálssyni, sveitarstjóra Strandabyggðar, var felld á sveitarstjórnarfundi í morgun með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Þá mun Óskar Hafsteinn Halldórsson sveitarstjórnarfulltrúi biðjast lausnar undan störfum sínum í sveitarstjórn.

Vantrauststillagan var lögð fram af Matthíasi Sævari Lýðssyni, fulltrúa A-lista, eftir að Jón Jónsson, íbúi í Strandabyggð og fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúi, var í úttekt KPMG hreinsaður af ásökunum um sjálftöku á fjármunum sveitarfélagsins.

„Grafalvarlegt“ og „forkastanlegt“

„Það er grafalvarlegt þegar æðsti valdsmaður í málefnum sveitarfélags kemur fram með slíkar ásakanir. Valdaójafnvægi er mikið þar sem annars vegar er um að ræða almennan íbúa í sveitarfélaginu og hins vegar oddvita sveitarfélagsins Strandabyggðar og þess lista sem vann síðustu kosningar og naut þá trausts meiri hluta kosningarbærra íbúa. Það að maður í slíkri stöðu skuli fara með þessum hætti gegn íbúa sveitarfélagsins er forkastanlegt og brýtur í bága við „Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð“,“ segir í tillögunni, sem er birt í fundargerð.

Matthías nefnir að Þorgeir hafi ítrekað fyrri ummæli sín um Jón, þrátt fyrir úttekt KPMG og því sé ljóst að hann taki ekki mark á úttektinni.

Jón Jónsson.
Jón Jónsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Leituðu til lögfræðings vegna hótana

Óskar Hafsteinn Halldórsson og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir hjá T-lista lögðu á fundinum fram bókun þar sem fram kemur að vegna hótana í kjölfar vantrauststillögunnar hafi þau m.a. leitað til lögfræðings sveitarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna réttarstöðu sinnar.

„Það er ólíðandi að bakland A lista skuli leyfa sér svona framkomu við kjörna fulltrúa. Svona hegðun hefur mikil áhrif á okkar fjölskyldu og vini í ljósi þess í hversu litlu samfélagi við búum. Af þeim sökum mun ég Óskar Hafsteinn Halldórsson á næstu dögum biðjast lausnar undan mínum störfum í sveitarstjórn því ég get ekki tekið áhættuna á því hvernig verður komið fram við mína nánustu í framhaldi þess ef ég sit áfram í sveitarstjórn,“ segir í bókuninni.

„Strandabyggð verður að komast á lygnan sjó“

Þorgeir Pálsson lagði einnig fram bókun þar sem hann segist ávallt hafa lagt sig fram um að vinna innan lagarammans sem starfi sínu séu settir, einblína á staðreyndir og vinna ávallt að hagsmunum sem gagnist sveitarfélaginu sem best.  

„Hafi sú viðleitni mín og framsetning leitt til misskilnings eða haft meiðandi áhrif á einhverja, þykir mér það miður. Það var aldrei ætlunin, heldur aðeins að vinna samkvæmt þeim ramma og forsendum sem ég hef tamið mér og mér er skylt að gera,“ segir hann í bókun sinni.

„Með vísan í bókun þeirra Sigríðar Guðbjargar og Óskars Hafsteins, sem fram er komin á þessum fundi, vil ég árétta að ég get ekki sætt mig við að félagar mínir í núverandi sveitarstjórn og fjölskyldur þeirra, sem enga aðkomu hafa að deilum fyrrverandi sveitarstjórnar við mig, skuli dregin svona inn í þær deilur, með þeim hætti sem verið hefur og fram kemur í þeirra bókun. Strandabyggð verður að komast á lygnan sjó,“ segir hann jafnframt og vill að horft sé til framtíðar. Fólk verði þá að vera sammála um að vera ósammála frekar en að halda þessu ástandi áfram.

„Ég vona að fram undan séu betri og friðsamlegri tímar og mun ég leggja mitt af mörkum til að svo megi verða í okkar ágæta sveitarfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert