Varar við sjálfum sér og talar góða íslensku

Fanney segir að íslenska bókaþjófsins sé merkilega góð. Hann virðist …
Fanney segir að íslenska bókaþjófsins sé merkilega góð. Hann virðist hafa einhvern grunnskilning á tengslum í íslenskum bókmenntaheimi.

Svo virðist sem bókaþjófurinn bíræfni einblíni á íslenskan markað nú um stundir og hefur honum farið mikið fram í íslensku. Raunar svo mikið að fólk innan bókabransans veltir því fyrir sér hvort um Íslending sé að ræða, jafnvel þótt gervigreindinni hafi fleygt fram.

Bókaþjófurinn virðist í það minnsta hafa einhverja grunnþekkingu á tengslum í íslenska bókageiranum.

Þá hefur hann undanfarið beitt óvenjulegum aðferðum í viðleitni sinni til þess að fá handrit send til sín og hefur meðal annars varað rithöfunda og útgefendur við sjálfum sér í tilraun sinni til þess að skapa traust við móttakanda tölvupósta frá honum.

Fanney Benjamínsdóttir, kynningarstjóri Forlagsins, segir bókaþjófinn til þessa hafa haft heiminn undir og reynt að fá handrit höfunda send til sín. Nú berast hins vegar fáar fregnir af honum utan Íslands.

Sektaður en engin fangelsisvist

Hinn upprunalegi bókaþjófur, Filippo Bernardini, var handtekinn í Bandaríkjunum árið 2021. Þá hafði honum tekist að komast yfir þúsundir handrita á ólíkum tungumálum. Bernardini slapp við fangelsisvist en var sektaður um 72 þúsund dali eða sem nemur nærri tíu milljónum króna árið 2023.

Það sem varð honum til tekna í skilningi laganna er að svo virðist sem söfnunarárátta hafi verið drifkraftur svikanna, fremur en að fjárhagslegur ávinningur lægi að baki.

„Bernardin var handtekinn vegna stuldar á bandarískum bókum og þess vegna fengum við aldrei almennilega staðfest hvort þessi sami maður hefði verið að herja á íslenskan markað, eða hvort við hefðum verið að glíma við einhvers konar eftirhermu,“ segir Fanney.

Fanney Benjamínsdóttir, kynningarstjóri Forlagsins.
Fanney Benjamínsdóttir, kynningarstjóri Forlagsins. Ljósmynd/Aðsend

Í það minnsta hélt bókaþjófurinn áfram eftir skamman dvala.

„Hann virðist aðallega vera að herja á íslenska markaðinn. Það var að vísu eitt tilvik í Noregi þar sem stór höfundur féll í gildruna. En þess utan virðist þetta mest vera hér,“ segir Fanney.

Varar við sjálfum sér

Hún segir ýmislegt óvenjulegt við aðferðir hans nú. Svo virðist sem hann láti sér ekki nægja að þykjast vera höfundur sem biðji um að fá eigið handrit sent, heldur er hann einnig að vara fólki við sjálfum sér, undir því yfirskini að hann sé höfundur, að vara fólk við.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég veit til þess að hann sé að vekja athygli á því að svikahrappur sé á ferð og að fólk eigi að vara sig á honum. Hann hefur þóst vera Guðrún Vilmundardóttir, útgefandi Benedikts bókaútgáfu, og sent öllum höfundum póst þar sem hann varar við því að bókaþjófurinn sé kominn á stjá,“ segir Fanney.

Guðrún staðfestir frásögnina

Guðrún Vilmundardóttir, útgefandi Benedikts bókaforlags, staðfestir þessa frásögn.

„Hann er með gudrun.vilmundar@hotmail.com og gv@benedikt.in en mitt meil er gv@benedikt.is. Hann breytir því .is í .in. Mér finnst mjög óþægilegt að einhver sé að skrifa í mínu nafni. Maður getur varast hann þegar maður veit af honum, en það er auðvelt að falla fyrir þessu þegar maður er á hlaupum. Hann náði að plata prentarann minn í Svíþjóð, sem sendi nokkur handrit á hann. Svo sendir hann höfundunum fyrsta kaflann í bókinni þeirra. En ekkert meira eftir það sem við vitum um. Þetta er náttúrlega mjög óþægilegt fyrir höfunda,“ segir Guðrún.

Guðrún Vilmundardóttir, útgefandi hjá bókaútgáfunni Benedikt.
Guðrún Vilmundardóttir, útgefandi hjá bókaútgáfunni Benedikt. mbl.is/Sigurður Bogi

Svaraði sjálfum sér 

Fanney segir að hann hafi einnig þóst vera Sunna Dís Másdóttir, sem er einn höfunda Forlagsins, og óskað eftir eigin handriti. 

„En svo brá hann sér í gervi starfsmanns Forlagsins og sendi á hina raunverulegu Sunnu og spurði af hverju hún væri að óska eftir handriti,“ segir Fanney og getur ekki annað en hlegið við.  

Íslenskan mun betri 

Fanney segir að íslenska bókaþjófsins sé merkilega góð. 

„Það slæðast einhverjar villur með í textanum en sannarlega er íslenskan í lagi. Hún var ekki svona góð. Þetta var í það minnsta ekki Íslendingur áður en það er mögulegt núna. Það er ekki hægt að útiloka það,“ segir Fanney. 

Hún segir manninn hafa einhvern grunnskilning á tengslum í íslenskum bókmenntaheimi. 

„Hann sendi t.d. á Fríðu Ísberg rithöfund skilst mér. Einnig fór þetta á fólk sem hún hefur einhver tengsl við. Fólk sem hún vissulega gæti beðið um handrit frá. En hann var að senda á fólk sem deilir skrifstofu með henni og allir sem þekkja til vita að hún er búin að lesa þau handrit. Ef hún vildi fá þau myndi hún bara biðja um þau yfir skrifborðið. Það er því einhver skilningur en hann er ekki mjög djúpur,“ segir Fanney. 

Sendi póst sama dag og fundur fór fram 

Jón Heiðar Gunnarsson, markaðsstjóri Forlagsins, er einn þeirra sem hafa fengið póst frá bókaþjófinum.

„Það sem truflar mann mest í þessu er að svikahrappurinn notast við íslenskt talmál. En einnig áttar maður sig ekki á því hvernig hann þekkir tengslin. Fyrir skemmstu átti ég fund með Sunnu Dís Másdóttur rithöfundi. Að morgni til, áður en fundurinn fór fram, sendi hann mér póst úr sunnadis@outlook.com, þar sem hann biður um að fá sent PDF-skjal með bókinni. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé tilviljun að hann sé að senda mér póst sama dag og ég á þennan fund,“ segir Jón Heiðar.

Jón Heiðar Gunnarsson, markaðsstjóri Forlagsins.
Jón Heiðar Gunnarsson, markaðsstjóri Forlagsins. Ljósmynd/Aðsend

Enginn skilur hvata bókaþjófsins 

Engar frásagnir eru af því að PDF-skjölin sem þjófurinn nær að komast yfir séu notuð í annarlegum tilgangi. Raunar skilur enginn hver hvati hans að verknaðinum er.

„Það hefur aldrei neitt dúkkað upp sem fólk hefur sent bókaþjófinum. Hann hefur komist yfir mikið af handritum áður en þau koma út. Það hefur aldrei neitt frést af þeim,“ segir Fanney.

„Það undarlega við Bernardini er að hann var sjálfur að vinna í bókaútgáfu þegar hann var að standa í þessu og hefði alveg getað fengið handrit send ef hann hefði beðið um handritin í eigin nafni. Þetta virðist hafa snúist um að blekkja fólk frekar en nokkuð annað,“ segir Fanney.

Að sögn Fanneyjar eru dæmi um að fólk hafi fengið afsökunarbeiðni úr undarlegum tölvupóstföngum eftir handtöku Bernardini á sínum tíma.

Heldur fólk jafnvel að þetta sé Bernardini aftur?

„Ég veit það ekki. Á þessum tímapunkti er fólki eiginlega orðið alveg sama,“ segir Fanney og hlær við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert