Vasaþjófarnir fylgja uppskrift: Lá við handalögmálum

Einar Á. E. Sæmundssen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir vasaþjófnað reglulega …
Einar Á. E. Sæmundssen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir vasaþjófnað reglulega taka skarpri uppsveiflu. Samsett mynd/Hari/Sigurður Bogi

Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir vasaþjófnað reglulega hafa komið upp á undanförnum tveimur árum.

Leiðsögumaður birti í dag færslu á Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar og varaði þar við vasaþjófum á Þingvöllum.

„Ætli þetta sé ekki þriðja eða fjórða lotan á síðustu tveimur árum,“ segir Einar inntur eftir því hvort vasaþjófnaður sé tíður á svæðinu.

Nota myndatökur til að fara í bakpoka

Yfirleitt er skörp uppsveifla í vasaþjófnaði á ferðamannastöðum að sögn Einars sem kveðst síðast muna til slíkrar sveiflu um síðustu jól.

„Menn voru gripnir glóðvolgir hérna um jólin í fyrra og þá lá nú við handalögmálum. Það mál upplýstist og fékk einhverja vegferð í kerfinu.“

Hann segir þjófnaðina yfirleitt fylgja svipuðu mynstri þar sem óprúttnir aðilar nýti sér mannþröng t.d. uppi við Hakið eða niðri í Almannagjá til að hnupla veskjum og verðmætum úr bakpokum og vösum. 

„Þetta er alltaf sama uppskriftin. Það eru grandalausir ferðamenn sem koma og biðja um að fá að taka mynd af þeim eða aðstoða við myndatöku og á meðan er þá farið í bakpoka.“

Óvandað fólk

Spurður hvort um sé að ræða skipulagða glæpahópa kveðst Einar hafa heyrt að yfirleitt sé um erlenda hópa að ræða sem komi hingað í styttri tíma í þeim tilgangi að brjóta af sér og hverfi síðan af landi brott.

Hann segir landverði þjóðgarðsins vera vakandi fyrir vasaþjófum og að skilti hafi verið sett upp til að minna ferðamenn á að hafa varann á.

„Þetta hefur gerst á Geysi og Gullfossi og víðar þar sem fjölfarnir ferðamannastaðir eru farnir að draga að sér svona óvandað fólk,“ segir Einar.

Þjóðgarðurinn aðstoði lögreglu eftir bestu getu í málunum, til að mynda með því að veita efni úr öryggismyndavélum. Segir Einar gott að vita til þess að leiðsögumenn og bílstjórar séu vakandi fyrir þjófunum og láti orðið berast þegar þeir séu á sveimi í þjóðgarðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert