Einum ríkisborgara frá Venesúela var fylgt í þvingaðri heimför af heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra í gærkvöld. Stjórnarandstæðingur í Venesúela gagnrýnir aðgerðir lögreglu á Íslandi. Formaður FTA segir dæmi um að fólk sæki um hæli á Spáni við millilendingu.
Í tilkynningu frá No Borders-samtökunum í gær kom fram að mótmæli færu fram í Leifsstöð vegna brottvísunar hóps fólks frá Venesúela en verkefnastjóri hjá ríkislögreglustjóra segir að aðeins hafi verið um einn einstakling að ræða. Hefur fréttin því verið uppfærð.
Kom fram í tilkynningu að aðgerðasinninn Betsy Contreras García væri meðal þeirra sem hafi verið handtekin og flytja ætti úr landi.
Segir að Betsy hafi tekið virkan þátt í mótmælum flóttafólks frá Venesúela á Íslandi og komið fram fyrir hönd þess opinberlega í fjölmiðlum. Rík ástæða sé til að hafa áhyggjur af velferð hennar.
Einn af þekktustu stjórnarandstæðingum ríkisstjórnar Nicolás Maduro, Antonio Ledezma, tjáði sig um aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn flóttafólki frá Venesúela í færslum á Instagram og X á föstudaginn.
Sjálfur hefur Ledzme verið í útlegð á Spáni síðan 2017. Hafði hann sætt þungum pólitískum ofsóknum af hálfu yfirvalda í Venesúela vegna starfa sinna og flúði landið eftir að hafa verið fangelsaður fyrir landráð.
Ledzeme gagnrýndi brottvísanir flóttafólks frá Venesúela sem og gagnrýndi sérstaklega handtöku Betsy, sem hefur barist gegn þvinguðum „sjálfviljugum“ endursendingum til Venesúela.
Jón Sigurðsson formaður Félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd (FTA) kvaðst ekki hafa borist fregnir um að fjöldabrottvísun væri fyrirhuguð í kvöld er blaðamaður mbl.is hafði samband.
Kvaðst hann aftur á móti þekkja til máls Betsy sem hafi verið handtekin fyrir nokkrum dögum en sleppt aftur úr haldi. Hann segir það að fólk sé handtekið þýði að það hafi ekki fallist á sjálfviljuga heimför.
„Mér skilst að það hafi átt að hneppa hana í gæsluvarðhald, sem sagt Betsy, en henni var forðað frá því. En það þýðir þó ekki að hún hafi verið laus frá því að brottvísunin yrði framkvæmd.“
Segir Jón FTA hafa verið í sambandi við lögfræðinga á Spáni, sem og aðila frá Venesúela sem áður voru umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi.
Að þeirra sögn hafi það átt sér stað í tengslum við millilendingar á Spáni, þar sem Útlendingastofnun stendur að flutningum á fólki til Venesúela í svokallaðri „sjálfviljugri heimför“, að fólk hefur sótt um vernd á Spáni við komuna þangað og fengið heimild til landgöngu og hefur þannig sloppið við það að vera sent til heimalandsins.
Segir Jón stigsmun á milli sjálfviljugrar heimfarar og brottvísunar en athugavert sé að Spánn meti sem svo að fólkið eigi að hljóta málsmeðferð þar í landi. Það geti aftur á móti einnig orðið til þess að það verði sent aftur til Íslands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
„Þá hefur okkur borist til eyrna að Útlendingastofnun hafi hætt við flutninga til Venesúela sem áttu að fara fram með millilendingu á Spáni og að stofnunin sé að skoða aðra möguleika varðandi kosti við framkvæmdir slíkra sendinga til Venesúela.“
Fréttin var uppfærð 10. október 16.55:
Áður sagði að til stæði að vísa hópi Venesúelabúa úr landi miðvikudagskvöldið 9. október. Ríkislögreglustjóri hefur leiðrétt það og segir aðeins einum ríkisborgara frá Venesúela hafa verið fylgt í þvingaðri heimför af heimferða- og fylgdardeild í gærkvöldi.