Kona á þrítugsaldri kveðst hafa orðið vitni að því er kona féll í Jökulsá í gær og lést. Hún furðar sig á því hve lítil viðbrögð aðrir á svæðinu sýndu.
Konan sem lætur ekki nafns síns geta birti færslu á spjallborðinu r/VisitingIceland undir notendanafninu TheGoldenDeglover á vefsíðunni Reddit í gær, um hálftíma eftir að atvikið átti sér stað.
Spyr konan þar hvort einhver viti hvað hafi orðið um konuna og fékk svör skömmu síðar frá öðrum notanda um að konan hefði látist.
Í athugasemd greinir konan frá atvikum við Jökulsá en hún og unnusti hennar voru á gangi á göngustíg skammt frá ánni.
„Þá heyrði ég hávært óp. Ég sá konuna velta niður fjallshlíðina og rekast utan í tvo kletta og detta beint ofan í vatnið.“
Þá hafi hún og unnusti hennar átt erfitt með að gera sér grein fyrir alvarleika atviksins þar sem aðrir í kring virtust ekki kippa sér mikið upp við fall konunnar og lítil hreyfing virtist vera á hópnum.
„Ég sá annan mann ganga hægt meðfram gangstígnum nálægt vatninu og ég átti erfitt með að átta mig á hvers bráðar aðstæður væru út frá hreyfingum hans. Hann var ekki að kalla á hjálp eða að hlaupa eða neitt þannig,“ segir konan og segir það hafa litið út fyrir að konan í vatninu væri að synda að bakkanum.
„Svo hætti hún að hreyfast og ég varð skelfingu lostin og hljóp niður hlíðina eins hratt og fætur toguðu. Það var mikil hálka svo ég reyndi að gæta þess að hrasa ekki og höfuðkúpubrjóta mig en ég var hanskalaus svo ég skar mig á hendi.
Þegar ég kom niður að ánni var hún komin allt of langt í burtu frá bakkanum. Ég reyndi að grípa í hana en gat það ekki. Ég reyndi að ná henni en hún var komin hinum megin við ána. Höfuð hennar var búið að vera undir vatnsyfirborði í alla vega mínútu á þessu stigi máls. Ég gat ekki bjargað henni í tæka tíð.“
Segir konan það skjóta skökku við hversu lítil viðbrigðin hjá nærstöddum voru og minnist sérstaklega á manninn sem gekk hægt og rólega nálægt árbakkanum.
„Maðurinn gekk hægt fyrir aftan mig þar sem ég kraup nálægt árbakkanum. Ég veit ekki hvort hann tengist konunni en hann hélt bara áfram að ganga.“
Segir hún erfitt að áfellast ekki sjálfa sig fyrir dauða konunnar þrátt fyrir að hún hafi reynt sitt besta til að bjarga henni. Hefði hún haft tíu sekúndur til viðbótar eða gert sér grein fyrir alvarleika málsins strax hefði hún getað náð henni.
„Ég veit ekki hvort ég hefði getað bjargað henni en já, ég er augljóslega eyðilögð yfir þessu.“