Ferðamaður við Stuðlagil: „Ég gat ekki bjargað henni“

Konan furðar sig á því hve lítil viðbrigði annarra viðstaddra …
Konan furðar sig á því hve lítil viðbrigði annarra viðstaddra voru. Ljósmynd/Jónatan Garðarsson

Kona á þrítugs­aldri kveðst hafa orðið vitni að því er kona féll í Jök­ulsá í gær og lést. Hún furðar sig á því hve lít­il viðbrögð aðrir á svæðinu sýndu.

Kon­an sem læt­ur ekki nafns síns geta birti færslu á spjall­borðinu r/​Visit­ingIce­land und­ir not­end­a­nafn­inu TheGold­en­Deglover á vefsíðunni Reddit í gær, um hálf­tíma eft­ir að at­vikið átti sér stað.

Spyr kon­an þar hvort ein­hver viti hvað hafi orðið um kon­una og fékk svör skömmu síðar frá öðrum not­anda um að kon­an hefði lát­ist.

Gerðu sér ekki grein fyr­ir al­var­leika í fyrstu

Í at­huga­semd grein­ir kon­an frá at­vik­um við Jök­ulsá en hún og unnusti henn­ar voru á gangi á göngu­stíg skammt frá ánni.

„Þá heyrði ég há­vært óp. Ég sá kon­una velta niður fjalls­hlíðina og rek­ast utan í tvo kletta og detta beint ofan í vatnið.“

Þá hafi hún og unnusti henn­ar átt erfitt með að gera sér grein fyr­ir al­var­leika at­viks­ins þar sem aðrir í kring virt­ust ekki kippa sér mikið upp við fall kon­unn­ar og lít­il hreyf­ing virt­ist vera á hópn­um.

Var kom­in of langt í burtu

„Ég sá ann­an mann ganga hægt meðfram gang­stígn­um ná­lægt vatn­inu og ég átti erfitt með að átta mig á hvers bráðar aðstæður væru út frá hreyf­ing­um hans. Hann var ekki að kalla á hjálp eða að hlaupa eða neitt þannig,“ seg­ir kon­an og seg­ir það hafa litið út fyr­ir að kon­an í vatn­inu væri að synda að bakk­an­um.

„Svo hætti hún að hreyf­ast og ég varð skelf­ingu lost­in og hljóp niður hlíðina eins hratt og fæt­ur toguðu. Það var mik­il hálka svo ég reyndi að gæta þess að hrasa ekki og höfuðkúpu­brjóta mig en ég var hanska­laus svo ég skar mig á hendi.

Þegar ég kom niður að ánni var hún kom­in allt of langt í burtu frá bakk­an­um. Ég reyndi að grípa í hana en gat það ekki. Ég reyndi að ná henni en hún var kom­in hinum meg­in við ána. Höfuð henn­ar var búið að vera und­ir vatns­yf­ir­borði í alla vega mín­útu á þessu stigi máls. Ég gat ekki bjargað henni í tæka tíð.“

Tíu sek­únd­ur hefðu getað skipt sköp­um

Seg­ir kon­an það skjóta skökku við hversu lít­il viðbrigðin hjá nær­stödd­um voru og minn­ist sér­stak­lega á mann­inn sem gekk hægt og ró­lega ná­lægt ár­bakk­an­um.

„Maður­inn gekk hægt fyr­ir aft­an mig þar sem ég kraup ná­lægt ár­bakk­an­um. Ég veit ekki hvort hann teng­ist kon­unni en hann hélt bara áfram að ganga.“

Seg­ir hún erfitt að áfell­ast ekki sjálfa sig fyr­ir dauða kon­unn­ar þrátt fyr­ir að hún hafi reynt sitt besta til að bjarga henni. Hefði hún haft tíu sek­únd­ur til viðbót­ar eða gert sér grein fyr­ir al­var­leika máls­ins strax hefði hún getað náð henni.

„Ég veit ekki hvort ég hefði getað bjargað henni en já, ég er aug­ljós­lega eyðilögð yfir þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert