Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, segir vert að líta upp til himins í kvöld enda megi búast við mikilli norðurljósadýrð strax þegar dimmir.
Svokölluð kórónuskvetta skelli á jörðina í kvöld sem verði til þess að norðurljósin muni að öllum líkindum leika um himininn.
„Ég þykist vita að þetta verði afskaplega vel lukkaðar norðurljósaferðir sem verða farnar í kvöld.“
Sævar segir kórónuskvettu vera eins konar flóðbylgju rafeinda eða sólvind sem oft fylgi kröftugum sprengingum á sólinni. Kórónuskvettur skelli á segulsvið jarðar á ógnarhraða svo það hristist og titri. Agnir streymi þaðan í áttina að pólum jarðar og skelli þar á súrefni og nitur sem myndi norðurljós.
„Þetta er í raun eins og kórónugos. Fyrir mér lítur þetta alltaf út eins og sólin sé að hnerra.“
Eins og er sé mjög öflugur segulstormur í gangi og haldist aðstæður eins og þær séu núna geti fólk átt von á því að sjá norðurljós um leið og dimmir.
„Bara litrík norðurljós um allan himinn, í allt kvöld, í alla nótt,“ segir Sævar en bætir við að fólk á Suðurlandinu kunni að vera að heppnast með veður til að berja ljósadýrðina augum.
Áhugasamir um norðurljósaútlit geta skoðað vef Sævars þar sem hann heldur úti norðurljósaspá, en þar má m.a. finna rauntímagögn um geimveður.
Þau gögn sýna t.d. segulsvið sólvinds sem flestar norðurljósaspár gera ekki. Vísi sá stuðull í suður eru góðar líkur á norðurljósum.
„Þannig fólk sem er úti að elta norðurljós á að fylgjast með þessu fyrst og síðast.“