Ekki er útilokað að kennarar greiði atkvæði um að leggja niður störf í fleiri skólum en þeim sem verkfallsaðgerðir hafa þegar verið boðaðar í. Þetta staðfestir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.
Félagsmenn aðildarfélaga í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum og einum framhaldsskóla, samþykktu nýverið að leggja niður störf, tímabundið og ótímabundið. Þá stendur enn yfir atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir í ótilgreindum tónlistarskóla en niðurstöður munu liggja fyrir á morgun.
Verkfallsaðgerðirnar hefjast 29. október, hafi kjarasamningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þær eru ótímabundnar í leikskólum, en standa til 22. nóvember í grunnskólum og 20. desember í framhaldsskólanum.
Magnús Þór útilokar ekki að framangreind tímabil muni lengjast. Hann bindur þó vonir við að samningar náist fyrir 29. október svo kennarar þurfi ekki að leggja niður störf.