#39. - Er ríkisstjórnin í andaslitrunum?

Ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar virðist hanga á bláþræði og öll ummæli ráðherra í morgun benda til þess að stjórnarslit vofi yfir.

Yfirvofandi stjórnarslit voru til umræðu í Spursmálum í beinni útsendingu í dag en upptökuna má sjá í spilaranum hér að ofan, á Spotify og YouTube og er hún öllum aðgengileg.

Formannskosning og símabrölt

Bjarni Benediktsson sagði í morgun að ríkisstjórnin og flokkarnir sem hana myndi séu í brekku um þessar mundir.

Hann heldur spilunum mjög nærri sér og þingmenn stjórnarflokkanna virðast lítt upplýstir um hvað gerist nú að tjaldabaki í samskiptum Bjarna, Svandísar Svavarsdóttur og Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Augljóst er að kosning Svandísar í formannsstól VG hefur ekki orðið til þess að styrkja stjórnarsamstarfið.

Þá hafa ummæli forsætisráðherra um símabrölt félagsmálaráðherra um miðja nótt, þar sem ríkislögreglustjóri blandaðist inn í pólitíska atburðarás, ekki hjálpað mikið til heldur.

Viðmælendur úr þremur áttum

Gestir þáttarins að þessu sinni eru þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Þátturinn að þessu sinni er með nokkuð óhefðbundnu sniði en óvenjulegir tímar kalla á óvenjulegar ráðstafanir við að tryggja lesendum mbl.is nýjustu og ferskustu tíðindin af hinu pólitíska sviði.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Íris Róbertsdóttir og Bergþór Ólason eru gestir …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Íris Róbertsdóttir og Bergþór Ólason eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum. mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert