Landsréttur hefur staðfest 20 mánaða fangelsisdóm yfir Heiðari Þór Guðmundssyni fyrir ýmis fíkniefna- og umferðarlagabrot.
Var hann meðal annars tekinn með um 750 gr af amfetamíni, 88gr af maríjúana, 20 gr af kókaíni, oxy-töflur og ýmiss konar aðrar töflur og duft sem eru ólögleg. Þá var hann í eitt skipti tekinn fyrir akstur undir áhrifum amfetamíns.
Heiðar, sem er 66 ára, hefur ítrekað áður hlotið dóma og nær sakaferill hans aftur til ársins 1988. Þannig hafði hann meðal annars níu sinnum verið sviptur ökurétti og var með fimm dóma fyrir akstur undir áhrifum áfengis- eða fíkniefna.
Var hann á skilorði og er dómurinn núna því hegningarauki við fyrri dóma.
Vegna sakarferils Heiðars þótti ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna.