Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir það eðlilegt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins velti vöngum yfir næstu skrefum í ríkisstjórnarsamstarfi við Framsóknarflokk og Vinstri græn.
„Við höfum hingað til verið að ná mikilvægum árangri fyrir Ísland. Við erum að sjá að vaxtalækkunarferlið er hafið, við erum búin að snúa við stöðunni í útlendingamálum og höfum byggt hérna upp land sem er gríðarlega samkeppnishæft þegar kemur að því að stofna fyrirtæki, vera frumkvöðull og í nýsköpunargeiranum, svo einhver dæmi séu tekin,“ segir ráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.
„En það sem hefur gerst, síðustu daga og vikur, er auðvitað afstaða samstarfsflokka okkar – að segja það að þau ætli ekki að ná árangri með okkur áfram í málum eins og útlendingamálum,“ segir Áslaug Arna.
„Og við erum í ríkisstjórnarsamstarfi til þess að klára mál, við höfum verið í því vegna þess að við teljum okkur vera að ná mikilvægum árangri. Og ef við sjáum ekki fram á það að ná að klára hér mál sem við höfum lagt ríka áherslu á – höfum forræði yfir með því að vera með þá málaflokka, þá er eðlilegt að við spyrjum okkur hver næstu skref í þessu samstarfi eru.“