Bjarni: „Stjórnin er í brekku“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra við komuna á fund ríkisstjórnarinnar í morgun.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra við komuna á fund ríkisstjórnarinnar í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir ríkisstjórnarflokkana ekki deila sameiginlegri sýn á framtíðina. Stórar yfirlýsingar formanns Vinstri grænna geti óneitanlega skapað vanda en hann muni áfram sinna sínum verkefnum þar til stjórnarsamstarfið líður undir lok.

„Ég held að allir stjórnarflokkarnir geri sér grein fyrir því að stjórnin er í brekku núna og stjórnarflokkarnir,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Vinstri græn samþykktu ályktun á landsfundi sínum á dögunum um að stefnt skyldi að kosningum í vor, eða nokkrum mánuðum áður en kjörtímabilið rennur sitt skeið.

Þá hyggst VG ekki gefa neitt eftir í útlendinga- og orkumálum það sem eftir lifir kjörtímabils. Mikillar óánægju gætir með ríkisstjórnarsamstarfið meðal nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu fyrr í vikunni sagði Óli Björn Kárason ekki lengur hægt að réttlæta stjórnarsamstarfið.

Bjarni Benediktsson á leið á ríkisstjórnarfund í morgun.
Bjarni Benediktsson á leið á ríkisstjórnarfund í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tiltölulega stutt“ eftir af kjörtímabilinu

Þrátt fyrir erfiða stöðu á stjórnarheimilinu segir forsætisráðherra ákveðna hluti þokast í rétta átt.

„Á sama tíma þá erum við að sjá marga hluti þokast í rétta átt í samstarfinu. Ég vísa til þess að við erum nú að sjá verðbólgu og vexti koma niður, jafnvel hraðar heldur en við gerðum ráð fyrir fyrir nokkrum mánuðum síðan,“ segir hann og heldur áfram: 

„Ákvarðanir sem voru teknar fyrr á þessu ári í hælisleitendamálum eru farnar að skila árangri þó við viljum halda áfram. Við erum með ýmis önnur mál í undirbúningi til að fylgja eftir ákvörðunum vorþingsins í orkunýtingarmálum.“

Engu að síður sé öllum ljóst að „tiltölulega stutt“ sé eftir af kjörtímabilinu.

„Þannig að það var við því að búast að spennan myndi vaxa í aðdraganda kosninga.“

Hann segir aðstæðurnar krefjandi, bæði vegna pólitíska landslagsins og verðbólgunnar sem hefur verið há í talsverðan tíma.

„Getur skapað ákveðinn vanda“

Nú hafa Vinstri græn sagt það nokkuð augljóslega að þau muni ekki gefa neitt eftir í orkumálum og útlendingamálum. Í ljósi þessa, ef menn eru að fara inn í veturinn með þetta á bakinu, er þessu ekki nánast sjálfhætt? Hvernig heldurðu að hinum almenna sjálfstæðismanni líði með að heyra þessi orð?

„Já, ég hefði kosið að menn væru minna með stórar yfirlýsingar eins og hefur komið fram. Þetta getur skapað ákveðinn vanda, ég neita því ekki.“

Íslandsmet í samstarfi þriggja flokka

Erum við á síðustu dögum þessarar ríkisstjórnar?

„Ég er í ríkisstjórninni af fullum krafti þangað til að ég er ekki lengur í ríkisstjórninni. Ég er aldrei að svífa inn til lendingar fyrr en að ég segi stopp. Við vorum að klára ríkisstjórnarfund og ég er í verkefnunum þangað til að ég er ekki lengur í verkefnunum,“ segir Bjarni.

Var þetta mál sérstaklega tekið fyrir á ríkisstjórnarfundinum? Það er að segja samstarfið?

„Nei, nei. En auðvitað hef ég rætt við formenn beggja flokkanna um þessa stöðu og fleiri ráðherra og við höfum átt mjög langt samstarf, þessir flokkar. Það eru komin sjö ár. Í raun og veru Íslandsmetið í samstarfi þriggja flokka. Það er eðlilegt að við berum saman bækur okkar og það er alveg rétt sem þú segir við deilum ekki sameiginlegri sýn á framtíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka