Byggðastofnun hefur ekki umboð til veita útgerðum sem gera út frá Grímsey undanþágu frá vinnsluskyldu.
Fram til 31. ágúst var í gildi reglugerð frá árinu 2015 í Grímsey sem veitti útgerðum í eynni undanþágu frá vinnsluskyldu. Reglugerð sú var numin úr gildi af Kristjáni Þór Júlíssyni, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, árið 2019.
Samið var við útgerðir í Grímsey út frá reglugerðinni frá árinu 2015 til ársins í ár. Þeir samningar runnu út 31. ágúst síðastliðinn.
Í tilkynningu frá Byggðastofnun segir að ekki sé að finna ákvæði í reglugerðinni sem heimili Byggðastofnun að veita undanþágu frá vinnsluskyldu og að stofnunin hafi ekki umboð til að breyta þeim reglum sem um aflamarkið gilda.
Í vor var auglýst eftir umsóknum um aflamark Byggðastofnunar til næstu sex fiskveiðiára og bárust sex umsóknir vegna Grímseyjar.
Byggðastofnun fundaði með umsækjendum í sumar í Grímsey og hvatti umsækjendur til að hámarka byggðaáhrif með nýtingu aflamarksins.
Umsóknirnar hafa ekki verið afgreiddar en umsækjendum gefinn kostur á að koma á samstarfi um vinnslu í eynni.