„Ekkert óvenjulegt“ við ályktun flokksins

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi og matvælaráðherra, segist ekki líta svo á að Vinstri græn séu að slíta ríkisstjórnarsamstarfi með því að hafa gefið út á landsfundi flokksins að stefna ætti að kosningum í vor.

Þá segir hún mörg verkefni vera á borði sem ríkisstjórnarflokkarnir þurfi að sameinast um að ljúka.

Í samtali við mbl.is segist Bjarkey hafa engu við að bæta er varðar þær umræður sem myndast hafa innan þingheimsins eftir landsfund Vinstri grænna.

„Við erum þar sem við erum. Við erum með verkefni fyrir framan okkur sem við hyggjumst vinna áfram og það verður bara hver flokkur innan þessa ríkisstjórnarsamstarfs að taka samtalið inn á við hjá sér, hvernig þeir sjá það fyrir sér fram að næstu kosningum,“ segir Bjarkey.

„Ég tel að við getum alveg klárað þau verkefni sem við erum með á borðinu og þurfum að ljúka.“

Hafi verið kallað eftir kosningum 

Finnst þér óeðlilegt að formaður ykkar hafi gefið það út á landsfundi án þess að ræða við formenn hinna ríkisstjórnarflokkanna að hún stefni að því að kjósa í vor? Er þetta ekki í raun ávísun á að þið viljið slíta ríkisstjórnarsamstarfinu?

„Ég lít ekki á það þannig að við séum að tala um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi í vor, alls ekki.“

Segir Bjarkey að margoft hafi verið um það spurt hvort það væri eðlilegt að færa kosningar aftur að vori eða halda áfram til næsta hausts.

„Þetta er bara hugmynd sem hún setti fram eftir samtal á landsfundinum þannig að mér finnst í sjálfu sér ekkert óvenjulegt við það og ég held að það hafi nú meira verið kallað eftir því heldur en hitt svona almennt að við færðum kosningarnar aftur til vorsins.“

Nefnir hún að á endanum verði það þó ákvörðun sem verði tekin í sameiningu ríkisstjórnarflokkanna.

Verkefni fram undan sem þurfi að leysa í sameiningu

Þið hafið talað um að þið hafið ekki hugsað ykkur að hleypa í gegn frekari lögum sem varða útlendingamálin og svo eru orkumálin líka erfiður málaflokkur sem ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki endilega sammála um stefnu í. Telur þú að það sé líklegt að þið komist að einhverri niðurstöðu í þessum tveimur málaflokkum og náið að afgreiða einhver frumvörp á komandi mánuðum?

„Ég ætla nú ekkert að segja um það að við klárum einhver frumvörp en eins og ég segi þá eru verkefni fyrir framan okkur sem við þurfum að komast að sameiningu um hvernig við leysum, hvort sem það eru útlendingamál, orkumál, sjávarútvegsmál eða hvað annað.

Það eru bara mörg verkefni og við þurfum að sameinast um að ljúka þeim með einhverjum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert