Fjármálaráðherra hefur sent óbyggðanefnd nýja kröfugerð vegna Vestmannaeyja.
Þar kemur fram að ráðherra hafi fallið frá stórum hluta af fyrri kröfum og að ekki sé lengur gerð krafa í Heimaklett eða brekkurnar í Herjólfsdal.
Þetta segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, á Facebook.
„En því miður heldur ríkið sig enn við það að vilja hluta af Vestmannaeyjum (Stórhöfða) og allar úteyjarnar. Þrátt fyrir að Vestmannaeyingar hafi árið 1960 keypt allar Eyjarnar og borgað ríkinu fyrir!“ segir hún jafnframt.
Íris nefnir einnig að ríkið muni halda áfram að borga lögmönnum stjórnvalda í Vestmannaeyjum og sínum eigin lögmönnum til að hægt verði að halda áfram „með þetta stór-furðulega og óþarfa verkefni!“
Bætir hún við að ríkið fari ekki vel með opinbert fé.