Formaðurinn víkur vegna ágreinings

Þórarinn Eyfjörð fráfarandi formaður Sameykis.
Þórarinn Eyfjörð fráfarandi formaður Sameykis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður Sameykis Þórarinn Eyfjörð hefur látið af embætti og varaformaðurinn fráfarandi Ingibjörg Sif Sigríðardóttir tekur við formennskunni. 

Í tilkynningu segir að ágreiningur hafi verið milli Þórarins og stjórnar Sameykis um nokkurt skeið og leiddi til þessarar niðurstöðu. 

„Á undanförnum mánuðum hefur ágreiningur verið milli formanns og stjórnar Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu um áherslur og stefnu í verkefnum félagsins. Vegna þessa ágreinings hefur orðið að samkomulagi að Þórarinn Eyfjörð láti af starfi formanns Sameykis.

Stjórn Sameykis og starfsfólk þakkar Þórarni Eyfjörð fyrir framlag sitt og þjónustu í þágu Sameykis og óskar honum velfarnaðar,“ segir í tilkynningunni. 

Sameyki er stéttarfélag í almannaþjónustu. Félagið varð til við sameiningu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SFR stéttarfélags í almannaþjónustu hinn 26. janúar 2019. Félagið þjónar rúmlega 14 þúsund félagsmönnum um land allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert