Fundi lokið í Valhöll

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir utan Valhöll nú á sjötta …
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir utan Valhöll nú á sjötta tímanum. mbl.is/Arnþór

Þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins er lokið. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður flokksins, ræddi við fjölmiðla fyrir utan Valhöll nú upp úr klukkan hálf sex. 

Bjarni segir enga sérstaka niðurstöðu hafa komið fram á fundinum en að flokkurinn hafi viljað ræða saman í ljósi þeirrar spennu útaf stjórnarsamstarfinu. 

„Við erum auðvitað að leggja okkar mat á stöðu flokksins. Við erum að leggja okkar mat á stöðu stjórnarsamstarfsins sem margir segja að standi veikt. Við erum meðvituð um að það eru veikleikar í stjórnarsamstarfinu. Okkar verkefni er að ná árangri í okkar málaflokkum, fyrir þjóðina með þau stefnumál sem við viljum berjast fyrir. Það er eðlilegt að við ræðum það þegar það er spenna í stjórnarsamstarfinu og allir sjá að hefur verið og gerist oft í aðdraganda kosninga,“ segir Bjarni.

Bjarni segir enga sérstaka tillögu hafi legið fyrir á fundinum og að fundurinn hafi ekki skilað neinni sérstakri niðurstöðu.

mbl.is/Arnþór

Spurður að því hvort hann teldi stjórnarflokkana munu ná saman um útlendingamálin segir Bjarni: 

„Útlendingamál eru stór málaflokkur, hælisleitendamálin eru ein skúffan í þeirri kommóðu. Við lögðum gríðarlega áherslu á það þegar við endurnýjuðum stjórnarsamstarfið að nú þyrftum við að fara ljúka við lagabreytingar sem kláruðust sumar, sem betur fer, á vorþinginu. Við höfum líka verið með átak í gangi til þess að herða á landamærunum og okkar skoðun er sú að þessari vinnu sé ekki lokið. 

Þess vegna er dómsmálaráðherra með frumvörp, og ég lýsi áhyggjum af því að því sé lýst yfir að þau fái ekki sína eðlilegu meðferð í þinginu,“ segir Bjarni. 

Hann segir að í þessum málaflokki þurfi að vera á tánum og að stjórnvöld þurfi að vera sveigjanleg.

Svarar engu um næstu kosningar

Nú liggur fyrir að það sé mjög mikil óánægja innan flokksins, var einhver þingmaður að kalla eftir því að þið mynduð slíta þessu ríkisstjórnarsamstarfi?

„Í aðra röndina þá höfum við verið að ná víða miklum árangri, við erum t.d. mjög ánægð með niðurstöðuna á vorþinginu. Í efnahagsmálunum, þau brenna á landsmönnum vegna vaxtastigsins. Þar eru horfurnar orðnar miklu betri, það hljóta allir að sjá það. Ekki bara er komin vaxtalækkun heldur eru verðbólguhorfur að lækka. Og spár um verðbólgu líta miklu betur út í dag, það er margt sem er að þróast vel. En við megum bara ekki láta verk úr hendi falla,“ segir Bjarni.

Hvenær sérðu fyrir þér næstu kosningar?

„Við erum ekki tilbúin að tjá okkur um það á þessum tímapunkti. Það er nú að jafnaði mál sem er rætt á milli flokkanna.“

Efasemdir um getu stjórnarflokkanna

Spurður að því hvort hann teldi sanngjarnt fyrir kjósendur að bíða með fá að vita hvort kosið verði í vor eða fyrr segir Bjarni: 

„Ja sko, ég hef nú bara verið mjög skýr með þetta og síðast verið að tjá mig um þetta í þinginu. Ríkisstjórn sem er að störfum og hefur umboð hún bara heldur sínum störfum áfram þar til kjörtímabilinu lýkur. Ríkisstjórn sem ekki getur það, hún ætti að fara til kosninga og hleypa fólkinu í landinu að borðinu,“ segir Bjarni. 

Spurður að því hvort það sé ekki einmitt staðan núna segir Bjarni: 

„Nú hef ég kannski ekki verið nógu skýr við ykkur, við erum að ræða þessa stöðu vegna þess að það eru efasemdir um getu stjórnarinnar til að klára þingmálin í vetur. Það er alvarlegt mál og þess vegna komum við saman hér í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert