Í hart við skiptastjóra

Quang Le vill fá aðgang að gögnum úr þrotabúi Vietnam …
Quang Le vill fá aðgang að gögnum úr þrotabúi Vietnam cuisine. Hann gerir athugasemdir við framgöngu skiptastjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Quang Le, sem einnig er þekktur sem Davíð Viðarsson, stendur nú í stappi við skiptastjóra eins af þrotabúum þeirra fyrirtækja sem hann átti áður. Hefur hann gert athugasemd við framgöngu skiptastjórans og verður sá ágreiningur tekinn fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í dag.

Um er að ræða þrotabú Vietnam Cuisine, en auk þess eru félögin Wokon mathöll, Wokon, Vy-þrif og EA 17 í gjaldþrotameðferð. Eft­ir standa NQ fast­eign­ir og Vietnam Mar­ket sem Quang Le á áfram.

Fundið að vinnubrögðum skiptastjóra

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Quang Le segir að um sé að ræða aðfinnslur sem gerðar hafa verið við vinnubrögð skiptastjóra.

Segir Sveinn að Quang Le hafi verið meinað um aðgang að gögnum þrotabúsins þrátt fyrir að hafa verið fyrirsvarsmaður þess.

Sveinn segir að í tilfelli annarra þrotabúa hafi Quang Le fengið greiðan aðgang t.d. að kröfuskrá. „Ég hef verið skiptastjóri í 30 ár og það hvarflar ekki að manni að fyrirsvarsmaður fái ekki aðgang að svona gögnum,“ segir hann við mbl.is.

„Það er einhver sturlun í gangi“ 

Segir Sveinn að þegar komi t.d. að forgangskröfum, sem oft eru launakröfur, leiti skiptastjóri oft álits forsvarsmanna um hvort þær eigi rétt á sér. Ekkert slíkt hafi verið gert í þessu máli. „Það er einhver sturlun í gangi,“ segir Sveinn.

Spurður hvort Quang Le sé kröfuhafi í búið svarar Sveinn því neitandi, en að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fylgjast með uppgjöri búsins.

Hann segir að óskað hafi verið eftir því að dómari gerði athugasemdir við framgöngu skiptastjórans og að honum yrði gert að bæta starfshætti sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert