Kvaðir Byggðastofnunar þröngsýnar

Guðlaugur Óli Þorláksson, útgerðarmaður og skipstjóri Hafborgar EA-152.
Guðlaugur Óli Þorláksson, útgerðarmaður og skipstjóri Hafborgar EA-152. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðlaugur Óli Þorláksson, útgerðarmaður og skipstjóri skipsins Hafborgar EA-152, segir það engan veginn ganga upp að koma á laggirnar fiskvinnslu í Grímsey með þeim hætti sem Byggðastofnun leggur til. Hann segir kvaðir stofnunarinnar þröngsýnar og að betra væri að vinna sem sameinað sveitarfélag, Grímseyjarhreppur og Akureyrarkaupstaður.

„Manni finnst þetta vera þröngsýni að fá ekki bara að landa þessu hjá til dæmis Samherja á Akureyri og vera í samstarfi við sveitarfélagið í heild. Það væri þægilegra að mörgu leyti,“ segir hann.

Óraunhæft að halda úti fiskvinnslu í Grímsey

Guðlaugur rekur ýmsar ástæður fyrir því að óraunhæft sé að halda úti fiskvinnslu í Grímsey, sem þurfi að uppfylla strembnar kvaðir Byggðastofnunar. Hann segir kvöð Byggðastofnunar um að skapa þurfi þrjú heilsársstörf með verkun fisks vera illa uppsetta og vísar til Fiskmarkaðarins í Grímsey sem sér um að slægja og vinna fisk:

„Það gekk mjög illa hjá honum að fá mannskap til að vinna í bara frágangi og slægingu á fiski,“ segir hann og það þrátt fyrir góða strandveiði.

Enn fremur segir Guðlaugur að engar líkur séu á því að starfrækja Fiskmarkaðinn sem vinnslu, nema hluta ársins:

„Það væri aldrei hægt á Fiskmarkaðinum að vera með vinnslu nema hluta úr árinu af því að strandveiðibátar á sumrin eru ekki að landa í einhverri vinnslu. Ég hef allavega ekki trú á því.“

Hann segir einnig vinnslu á saltfiski hafa verið starfrækta í Grímsey á árum áður en að rekstur hennar hafi verið strembinn.

„Það var engin rosaleg afkoma af því og erfitt að fá starfsfólk.“

Verið að neyða sjómenn í að verka í tapi

Hann vísar einnig til tillögu Byggðastofnunar um að komi til hráefnaskorts í Grímsey ætti hráefni að vera keypt á markaði og til vinnslu í eyjunni:

„Þetta er kannski ágætt á blaði, en þetta gengur ekki, því við höfum enga möguleika á að bjóða í fisk á landi, flytja til Grímseyjar og svo aftur í land. Þetta yrði allt of dýrt.“

Hann tekur Hafborg sem dæmi og segir stærsta hluta afla skipsins vera steinbít, kola og ýsu:

„Það færi aldrei í vinnslu í Grímsey. Við sjáum að um 90% af kolanum sem veiddur er við Ísland er fluttur út í gámum og um 90% af steinbít og stærsti hluti ýsunnar.“

Grímseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarkaupstað árið 2009. Guðlaugur bendir á að upp hafi verið hugmyndir um að leyfa fiskvinnslu Samherja á Akureyri að starfa sem fiskvinnslu Grímseyjar en að Byggðastofnun hafi komið í veg fyrir það og vísað til þess að um annað atvinnusvæði væri að ræða.

„Manni finnst þetta vera þröngsýni að fá ekki bara að landa þessu hjá Samherja á Akureyri og vera í samstarfi við sveitarfélagið í heild. Það væri þægilegra að mörgu leyti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert