Niðurstaðan kom oddvitanum á óvart

Tölvumynd sem sýnir fyrirhugaðan Búrfellslund við Vaðöldu. Reisa á allt …
Tölvumynd sem sýnir fyrirhugaðan Búrfellslund við Vaðöldu. Reisa á allt að 30 vindmyllur á svæðinu sem framleiða 120 MW Ljósmynd/Landsvirkjun.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna virkjunarleyfis sem Orkustofnun veitti Landsvirkjun vegna Búrfellslundar og telur sveitarfélagið skorta kæruheimild.

Haraldur Þór Jónsson oddviti sveitarfélagsins segir þessa niðurstöðu koma á óvart og valda vonbrigðum. Að mörgu leyti sé nefndin að segja að vilji sveitarfélagið fá skorið úr málinu þurfi að gera það fyrir dómstólum.

Hann segir að sveitarstjórnin muni ræða málið á næstu dögum en líklega verði beðið niðurstöðu í máli Náttúrugriða, sem einnig kærðu virkjunarleyfið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarnefndin segir að í stjórnsýslurétti sé álitið að stjórnvöld njóti ekki almennrar heimildar til þess að kæra ákvarðanir annarra stjórnvalda til æðra stjórnvalds. Skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild hafi verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Svæðið eigi ósnortið

Úrskurðarnefndin hafnaði kröfu samtakanna Náttúrugriða um að framkvæmdir við vegagerð og uppsetningu vinnubúða vegna vindorkuversins yrði stöðvuð á meðan kæra samtakanna vegna framkvæmdaleyfis Rangárþings ytra vegna þessa væri til meðferðar hjá nefndinni.

Náttúrugrið kærðu einnig veitingu virkjunarleyfisins til nefndarinnar en niðurstaða í því máli liggur ekki fyrir.

Úrskurðarnefndin segir að ekki verði fram hjá því litið að framkvæmdasvæðið sé eigi ósnortið, enda á orkuvinnslusvæði sem hafi orðið fyrir raski. Nefndin segir að að því virtu og með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér verði ekki talið að knýjandi þörf sé á að fallast á kröfu Náttúrugriða um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.

En úrskurðarnefndin tekur jafnframt fram að Landsvirkjun beri áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi félagið að halda framkvæmdum áfram áður en niðurstaða málsins liggi fyrir.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert