Oft konur í áhættuhópi sem mæta ekki

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarmiðstöðvar krabbameinsskimana, segir mikilvægt að upplýsa …
Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarmiðstöðvar krabbameinsskimana, segir mikilvægt að upplýsa konur um rétt sinn. mbl.is/Karítas

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarmiðstöðvar krabbameinsskimana, hvetur vinnuveitendur til að taka af skarið og upplýsa konur um rétt sinn til að fara í brjóstaskimun á vinnutíma. Hann segir ákveðna fylgni á milli aukinnar áhættu á að fá brjóstakrabbamein og þess að mæta ekki í skimun, þar sem þær konur séu oft ekki nógu meðvitaðar um eigin heilsu.

Þátttaka í brjóstaskimun hér á landi hefur ekki verið viðunandi í langan tíma, en vonir eru bundnar við að með því að lækka gjald fyrir skimun úr rúmum 6.000 krónum í 500 krónur, muni þátttaka aukast. Heilbrigðisráðherra kynnti breytingarnar á blaðamannafundi í gær.

Vilja sjá hækkun yfir lengri tíma

„Við höfum talað fyrir þessu lengi og það er einstaklega ánægjulegt að ráðherra hlusti á okkur og framkvæmi. Rannsóknir sýna fram á að kostnaður getur verið hindrun fyrir ákveðna hópa til að mæta í skimanir.

Með því að fella niður kostnað sjáum við fram á að geta aukið þátttökuna, en því til viðbótar er líka mikilvægt að hafa í huga að lítill kostnaður eykur líka þátttöku þeirra sem hafa efni á henni, þannig að það er líklegt að þetta verði til þess að auka þátttökuna,“ segir Ágúst í samtali við mbl.is.

Hann segist hins vegar ekki vilja sjá kipp í stuttan tíma heldur stöðuga hækkun yfir langt tímabil.

Vantar oft fræðslu

Aðspurður hvort það séu jafnvel konur í áhættuhópi á að fá brjóstakrabbamein sem ekki hafa verið að mæta í skimun, segir Ágúst það hugsanlega vera.

„Það má eiginlega segja að það sé ákveðin fylgni á milli þess að mæta ekki í skimun og aukinnar áhættu, að því leytinu til að þeir sem mæta í skimun eru oft einstaklingar sem eru meðvitaðir um eigin heilsu og gæta almennt betur að eigin heilsu. Þeir sem mæta ekki eru láglaunafólk, oft erlendar konur, en þær vantar oft fræðslu og fyrir þær er þetta líka kostnaður.“

Vita ekki að þær mega skreppa

Ágúst segir mikilvægt að kynna breytingarnar mjög vel þannig að konur viti að gjaldið verði aðeins 500 krónur frá og með 14. október. 

„Svo er annað sem væri líka gott að koma á framfæri og það er að konur eiga rétt á að skreppa frá í skimun á vinnutíma. Það eru ekki allar konur sem átta sig á því, sérstaklega á það kannski við erlendar konur sem hafa kost á skimun en vita ekki að þær mega skreppa frá í þennan tíma. Við erum að höfða bæði til þeirra, að upplýsa þær um sinn rétt, en ekki síður til vinnuveitenda að þeir taki af skarið og segi konunum að þær megi skreppa frá.“

Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, yfirlæknir Brjóstamiðstöðvar Landspítalans, segir unnið að því …
Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, yfirlæknir Brjóstamiðstöðvar Landspítalans, segir unnið að því að nútímavæða þjónustuna og gera hana aðgengilegri. mbl.is/Karítas

„Þetta er lífsnauðsynlegt“

Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, yfirlæknir Brjóstamiðstöðvar Landspítalans, segir að unnið hafi verið að því að nútímavæða þjónustuna og gera hana aðgengilegri öllum. Nú þegar kostnaður hafi nánast alveg verið felldur niður sé stórri hindrun rutt úr vegi.

„Við vonum að þetta verði konum hvatning til þess að mæta í brjóstaskimun. Þetta er lífsnauðsynlegt og virkilega mikilvægt að mæta. Brjóstakrabbamein er það algengur sjúkdómur, algengasta krabbamein hjá konum. Það greinast fjórar til fimm konur hjá okkur vikulega. Þetta er mjög há tala og það þekkja allir einhvern í kringum sig sem hefur fengið brjóstakrabbamein.“

200 konur greinast árlega með brjóstakrabbamein og um 50 látast úr sjúkdómnum.

Hún segir því gríðarlega mikilvægt að grípa meinið á forstigum og það sé ekki að ástæðulausu sem konur eru hvattar til að mæta í brjóstaskimun.

„Þetta er algjörlega hættulaus rannsókn og auðveld. Ferlið er þannig í dag að það er mjög fljótlegt að mæta í skimun og ferlið sjálft tekur um þrjár til fimm mínútur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert