Sigurður Ingi: Framsókn ávallt tilbúin í kosningar

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kveður Framsókn ávallt reiðubúna til kosninga.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kveður Framsókn ávallt reiðubúna til kosninga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er augljóslega óheppilegt að vera með of miklar yfirlýsingar þegar allir ganga ekki í takt og ég myndi segja að það væri bara ábyrgðarlaust að henda frá sér verkefnum, við erum enn með verkefni sem skipta máli fyrir samfélagið, við erum með stjórnarsáttmálann og við sjáum verðbólguna fara hraðar niður en við trúðum á fyrir tveimur mánuðum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra við mbl.is að loknum stjórnarfundi.

Hvað finnst þér um orð á borð við þau sem berast úr ranni VG þar sem í raun er verið að taka þingrofsheimildina frá forsætisráðherra í einhverjum skilningi og þannig boðað til kosninga?

„Það var í rauninni ekki gert heldur var þetta fundur í VG. Stjórnmálaflokkar þurfa jú að lifa og halda sína fundi og þar tala menn kannski með öðrum hætti. Síðan ertu til hliðar við það ef þetta eru stjórnmálaflokkar sem eru í ríkisstjórn, þá eru þeir með sáttmála milli þriggja flokka um hvernig við ætlum að vinna. Það varir til loka kjörtímabils nema flokkarnir komi sér saman um annað,“ svarar fjármálaráðherra og nefnir í framhaldinu að hver stjórnmálaflokkur geti að auki haft umræður og skoðanir fyrir sig.

Við vitum hve langt kjörtímabilið er

Spurður hvort hann telji ríkisstjórnina halda út veturinn kveður hann það höfuðmáli skipta að stjórnin klári sín verkefni og komi sér svo saman um hvenær skynsamlegast sé að kjósa.

„Við erum með sáttmála og við vitum hve langt kjörtímabilið er. Það er bara verkefni okkar og ríkisstjórnarinnar og oddvita. Það samtal er að eiga sér stað,“ svarar Sigurður Ingi.

Framsókn mælist með rúmlega sex prósenta fylgi. Eruð þið tilbúin í kosningar?

„Við erum ávallt tilbúin í kosningar. Við höfum svo sem áður séð lágt fylgi í einhvern tíma fyrir kosningar. Við trúum því að með því að ná að ljúka þeim verkefnum sem við teljum mikilvægt að ljúki verði auðveldara fyrir okkur að fara til kjósenda og segja frá góðum verkum þessarar ríkisstjórnar og verkum Framsóknar, þeim loforðum sem við gáfum í síðustu kosningum, hvernig við höfum efnt þau – og það er þá sterkari hljómgrunnur fyrir því,“ svarar ráðherra og er spurður út í hljóðið á fundinum í dag.

Ræða saman alla daga

„Andinn við ríkisstjórnarborðið er býsna góður þrátt fyrir allt. Við erum bara einbeitt að þeim verkefnum, einstaka ráðherrar eru með sín verkefni sem þeir vilja koma á framfæri,“ svarar hann og ýjar að því í svari við lokaspurningu, um hvort samstarf ríkisstjórnarinnar hafi verið rætt með óformlegum hætti, að svo hafi verið.

„Það náttúrulega liggur í augum uppi, við erum í stjórnmálum, við ræðum saman alla daga,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert