Tekst á við ellina með aðstoð geðlæknis

„Ég er ósáttur við að eldast,“ viðurkennir gestur Dagmála, sjónvarpsmaðurinn góðkunni Jón Ársæll Þórðarson. Hann hefur leitað til geðlæknisins Óttars Guðmundssonar og ræðir þar þetta ósætti sitt.

Jón verður 75 ára á næsta ári og gigt er hans samferðamaður í dag frá morgni til kvölds. Jón og Óttar ræða ellina reglulega og hefur sá síðarnefndi upplýst Jón um að ekkert sé hægt að gera til að stöðva það ferli.

Jón segir það gömul sannindi og ný að það að segja frá og ræða hlutina opinskátt sé líknandi og læknandi í sjálfu sér. Jón Ársæll segir hluta af ósætti sínu vera að geta ekki lengur gert þá hluti sem fórust honum létt úr hendi áður. Til dæmis að geta stokkið út dagpart og málað þakið sitt.

„Við föllum öll að lokum, ég veit það en er svo sem ekki á neinum bömmer yfir þessu,“ upplýsir hann. 

Jón Ársæll nam klíníska sálfræði á yngri árum og lauk því námi í Svíþjóð. Hluti af náminu var einmitt öldrunarsálfræði sem hann segir stórmerkilegan hlut.

„Visna og deyja, rotna og gleymast“

„Það að eldast er stórkostlegur hlutur en það er líka hluti af því að visna og deyja og rotna og gleymast. Þetta er hluti af því sem við verðum öll að ganga í gegnum og ég er að því núna.“

Tilefni þess að Jón Ársæll kom í Dagmál er öðru fremur bók sem hann hefur skrifað og kemur í verslanir fljótlega. Bókin heitir Ég átti að heita Bjólfur og rekur æskuminningar hans fram til þess tíma að hann yfirgaf foreldrahús. Frá mörgu er að segja og hóf Jón sjósókn tólf ára og var þá munstraður á togara.

Hér að ofan ræðir Jón baráttu sína við Elli kerlingu. Þátturinn í heild sinni er opinn fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert