Það vantar sérúrræði fyrir kvenfanga

Tinna og Þóra Björg geta miðlað reynslu sinni sem fyrrum …
Tinna og Þóra Björg geta miðlað reynslu sinni sem fyrrum fangar. mbl.is/Árni Sæberg

Margsinnis hefur komið fram, t.a.m. í skýrslum og fjölmiðlum, að aðstöðu og þjónustu við kvenfanga á Íslandi sé verulega ábótavant. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins síðastliðna helgi birtist viðtal við þær Þóru Björgu Sirrýjardóttur, 35 ára, og Tinnu Hilmarsdóttur Konudóttur, 39 ára, sem báðar hafa afplánað dóma í fangelsum hérlendis og geta því deilt reynslu sinni af íslenska refsivörslukerfinu.

Þóra afplánaði þrisvar í kvennafangelsinu í Kópavogi og á Kvíabryggju en Tinna sat inni á Hólmsheiði og á Sogni.

Nokkuð ljóst er á samtalinu við þær að kerfið hafi brugðist og að frjáls og óháð félagasamtök og aðrir samfangar hafi veitt aðstoð sem þær hefðu átt að fá frá yfirvöldum.

Þóra og Tinna eru edrú í dag og vinna mikilvægt sjálfboðastarf sem trúnaðarkonur innan AA samtakanna og í vettvangsteymi á vegum Afstöðu, hagsmunasamtaka fanga. Í vettvangsteyminu fara þær inn í fangelsin, ræða við fanga sem sitja í afplánun og koma skilaboðum eða ábendingum á framfæri við yfirvöld.

Samkvæmt Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu, sparar vettvangsteymið ríkinu yfir 200 milljónir króna á ári.

Neikvæð niðurstaða skýrslu umboðsmanns

Í skýrslu frá umboðsmanni Alþingis í júlí 2023, sem er niðurstaða vettvangsrannsóknar í fangelsunum, kemur m.a. fram að möguleikar kvenna á að afplána í opnu úrræði eru lakari en karla sem er „ósamræmanlegt almennum jafnræðisreglum“.

Stór hluti kvenfanga glímir við eða hefur glímt við vímuefnavanda og er félagsleg staða þeirra yfirleitt lakari en hjá körlum, samt fá þær minnsta aðstoð innan refsivörslukerfisins við að ná tökum á vanda sínum.

Þá er tilmælum beint til mennta- og barnamálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og Fangelsismálastofnunar er varða atvinnutækifæri og menntun kvenfanga, upplýsingagjöf, virknistarf og þjónustu.  

Tinna bendir á að það vanti stuðning á staðnum til að setja fangana betur inn í hvernig best sé að stunda nám. Það hafi skort á aðhald. 

„Og maður fékk einhver laun fyrir að vera fjarnámi. En það var enginn sem kenndi mér á tæknilegu hliðina. Allt í einu sit ég fyrir framan tölvuna og veit í raun ekkert hvað ég á að gera.“

Þær benda á gallana í refsivörslukerfinu.
Þær benda á gallana í refsivörslukerfinu. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirkomulag kvenfanga

Konur sem afplána eru í dag sendar á Hólmsheiði, sem er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með hátt öryggisstig, eða á Sogn. Til að afplána á Sogni þarf að uppfylla ströng skilyrði þar sem um opið úrræði er að ræða. Á Sogni eru að jafnaði 18 karlmenn á móti þremur konum en að sögn hlutaðeigandi gerir þessi munur það að verkum að þær kjósi frekar Hólmsheiðina.

Meginniðurstaða áðurnefndrar skýrslu umboðsmanns sýnir að skortur á virknistarfi og þjónustu við kvenfanga á Hólmsheiði vitni um að fangelsið henti illa sem langtímaúrræði.

Tinna lýsir upplifun sinni af að koma inn í fangelsið á Hólmsheiði. „Ég var í mjög slæmu ástandi þegar ég kom inn og vissi ekkert hvar ég var þegar ég vaknaði, þótt ég hafi nú áttað mig smám saman á því.“

Hún ítrekar að vöntun hafi verið á upplýsingagjöf og að hún hafi þurft að sækja upplýsingar sjálf t.a.m um geðheilsuteymið, sem hún frétti af í gegnum samfanga.

Það skýtur skökku við að konur eru sendar í afplánun á Hólmsheiði þegar fram kemur í skýrslu nefndar um framtíðarrekstur fangelsisins á Litla-Hrauni frá árinu 2007 að samkvæmt þarfagreiningu átti ekki að vista langtímafanga á Hólmsheiði. Konur áttu að vera vistaðar þar í skammtímaafplánun eða við upphaf afplánunar áður en þær yrðu sendar annað í langtímaafplánun.

Nefndin sem vann skýrsluna var á vegum þáverandi dóms- og kirkjumálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar.

Við vinnslu skýrslunnar leitaði nefndin eftir sjónarmiðum starfsmanna fangelsisins á Litla Hrauni, fanga og allra þeirra sérfræðinga sem koma að starfi Litla-Hrauns. Miðað við þau viðtöl sem tekin voru og upplýsingar sem nefndin aflaði er talið mikilvægt að kvenfangar eigi möguleika á að afplána refsivist í sérstöku kvennafangelsi. Mælt var með að slíkt fangelsi yrði deildaskipt með möguleikum á öryggisvistun og opinni eða hálfopinni vistun. Góð aðstaða þyrfti að vera fyrir börn þeirra kvenna sem þar myndu dveljast. 

Í skýrslu umboðsmanns 2023 segir aftur „að ekki verði séð að innviðir fangelsanna fullnægi þörfum ungra barna sem kynnu að dvelja í afplánun með mæðrum sínum.“

Að 16 árum liðnum, frá skýrslunni 2007, er líkt og ekkert hafi verið hlustað á þær ábendingar sem settar voru fram.

Dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, segir í samtali við Morgunblaðið að verið sé að taka fullnustukerfið til skoðunar heildrænt, sem hafi aldrei verið gert. Nú sé í áætlun að byggja nýtt fangelsi fyrir karlkyns fanga á Stóra-Hrauni fyrir 14 milljarða með t.d. sér meðferðarhúsnæði en stakstæða einingu fyrir kvenfanga á Sogni og að settar verði 3-400 milljónir króna í þá byggingu. 

Tinna og Þóra Björg hafa ótrúlega sögu að segja, eru …
Tinna og Þóra Björg hafa ótrúlega sögu að segja, eru edrú í dag og virkar í sjálfboðastarfi m.a. í vettvangsteymi Afstöðu. mbl.is/Árni Sæberg

Neyslan kom þeim í fangelsi

Áður voru starfrækt kvennafangelsið í Kópavogi, sem var lokað árið 2015 og um tíma var prófað að láta konur afplána á Kvíabryggju, en því var hætt árið 2018 því aðstæður þóttu betri fyrir bæði kyn á Sogni.

„Ég sat inni í janúar til júlí 2011 og aftur í svipaðan tíma árið 2012. Svo frá janúar fram í ágúst 2014,“ svarar Þóra. Hún hefur fengið einn dóm síðan þá en afplánaði hann í samfélagsþjónustu þar sem hann náði ekki 24 mánuðum.

„Fyrsta skipti sem ég sat inni [2011] var ég bara úti að flauta allan tímann,“ og vísar Þóra í að hafa verið í neyslu allan þann tíma sem hún sat fyrst í kvennafangelsinu. „Fyrsta sem ég gerði var að láta kærasta minn koma með meik til mín og í meikinu voru Contalgin-töflur. Hann kemur með þetta til mín bara fyrsta sólarhringinn.“

Árið 2014 hóf Þóra sína þriðju afplánun í kvennafangelsinu, þá búin að vera edrú í hálft ár, sem var eitt af skilyrðum þess að hún fengi síðan að afplána í opnu úrræði á Kvíabryggju. Á þeim stutta tíma sem Þóra var í kvennafangelsinu var mikil neysla en einn samfanga Þóru fékk peningasendingar með Fentanýl plástrum inn í fangelsið. 

„Þetta er bara glær plástur sem er límdur á peningana.“ Þeir voru svo teknir af og settir í bolla með vatni sem hitað var í örbylgjuofni. Sítróna var kreist út í og vökvinn drukkinn.

„Þarna voru allir á haus. Það var ögrandi að vera edrú í því umhverfi,“ segir Þóra. Á þeim tíma voru AA-fundirnir hennar haldreipi.

Aðspurð nefnir Þóra dæmi um þá dóma sem hún hefur hlotið t.a.m fyrir þjófnað, nytjastuld, akstur undir áhrifum fíkniefna og fíkniefnalagabrot. „Það er enginn sem fær mig í þetta. Þetta er klárlega bara ég, búin að taka mikið af efnum og þá er góð ákvörðun að fara að stela.“

Það sama á við um Tinnu sem var í mikilli neyslu um tíma áður en hún fór í fangelsi. En hún bætir því við að brotin snúist ekki einungis um að fjármagna neysluna heldur einnig það að verða háður því að gera eitthvað af sér. Tinna man vel dagsetninguna þegar hún fór inn á Hólmsheiði í afplánun, 22. október 2021, sem var fyrsta og eina skiptið.

„Ég var þá með sex dóma og einn annan á leiðinni. Aðallega fyrir akstur án ökuréttinda og undir áhrifum og innbrot.“

Tinna byrjaði afplánunina á Hólmsheiði frá október til janúar. Það tók hana sex vikur að fá að hitta son sinn, þá 17 ára, vegna þess að óratíma tók að fá íslykil svo hún gæti sótt forsjárvottorð. Tinna segir að fangelsið hafi átt að útvega lykilinn og það hafi verið mjög dapurt og erfitt fyrir þau mæðgin að hittast ekkert allan þennan tíma.

Síðar var Tinna færð í opið úrræði á Sogni ásamt tveimur öðrum konum, frá janúar fram í maí 2022, en þá fór hún á Vernd og er enn á reynslulausn.

Af hverju Sogn?

Þegar Þóra Björg og Tinna eru spurðar út í hvaða breytingu þær myndu vilja sjá á málefnum kvenfanga á Íslandi svarar Þóra um hæl: „Mér finnst að þær ættu að vera alveg sér, ekki á Sogni. Það á að vera fangelsi einungis fyrir konur. Það er allt öðruvísi að vera kona í fangelsi með konum eða kona í fangelsi með konum og körlum.“

Tinna er fljót að bæta við: „Ég skil bara ekki af hverju það [umrætt hús á Sogni] má ekki vera einhvers staðar annars staðar. Ef það á að byggja hús, af hverju þarf það að vera á Sogni? Maður verður hvort eð er alltaf að hitta þetta lið þarna úti,“ og á Tinna þar við karlmennina sem afplána á Sogni með konunum.

„Ég myndi vilja sjá sér fangelsi með meðferðargangi eins og er á Litla-Hrauni. Það er fullt af kvenkyns fangavörðum sem vildu vinna bara í kvennafangelsi,“ segir hún.

Erfitt að vera í kringum karlana

Tinna og hinir tveir kvenfangarnir á Sogni náðu vel saman. En hún segir að erfitt hafi verið að umgangast ákveðinn hóp karlkyns fanganna, vegna sögu um kynferðisbrot og eins vegna þess hvernig þér létu við samfanga Tinnu.

„Sumir menn þarna komu úr sama heimi og ég og voru þekktir fyrir að vera mjög óviðeigandi við konur,“ segir Tinna. „Konur eiga bara að geta farið saman í opið úrræði án þess að hitta karlmenn.“

Hún útskýrir að sumir fanganna hafi verið að senda óviðeigandi skilaboð á eina þeirra og eltu hana jafnvel á röndum.

„Hún er í afplánun og er alltaf að reyna að gera sitt besta. Henni fannst óþægilegt að fara niður í matsal því hún hafði verið að fá skilaboð frá einhverjum þeirra. Svo var annar maður sem elti hana út um allt, var svo skotinn í henni og var miklu eldri en hún.“ Sú kona hafi hins vegar ekki leitað aðstoðar fangavarðanna því upplifun kvennanna hafi almennt verið að það hefði ekkert upp á sig. Jafnvel einhver ótti við að standa í fæturnar gegn karlmönnunum.

Í skýrslunni 2007 kom fram að ljóst er að veita þarf kvenföngum sérstakan stuðning vegna félagslegra aðstæðna þeirra. Rannsóknir hafi verið gerðar sem sýna fram á að meirihluti kvenfanga eigi við mun meiri félags- og heilbrigðisvandamál að etja en karlfangar. Á þeim tíma tóku starfsmenn kvennafangelsisins í Kópavogi heilshugar undir það.

Huga þarf sérstaklega að meðferð fyrir kvenfanga sem hafa sætt ofbeldi og kynferðislegri misnotkun, sérstakri meðferð fyrir konur með áfengis- og vímuefnavanda sem og því að vernda konur gegn ofbeldi og misnotkun í fangelsi með karlmönnum.

Þarfir kvenna eru ólíkar þörfum karlmanna og flestir þeir sem rætt var við í téðri skýrslu töldu heppilegast að konur afplánuðu í sérstöku kvennafangelsi, þannig næðist betri árangur í meðferðar- og uppbyggingarstarfi.

Tinna segist t.a.m. aldrei hafa hitt vímuefnaráðgjafa þegar hún sat inni. Hins vegar hafi hún verið heppin að þar var kona sem kom edrú í afplánun og bauð henni með á AA-fund.

„Ég er ekkert viss um að ég hefði náð þessu ef hún hefði ekki verið þarna.“

Sterkar konur sem reynt hafa ýmislegt og horfa björtum augum …
Sterkar konur sem reynt hafa ýmislegt og horfa björtum augum til framtíðar. mbl.is/Árni Sæberg

Lífið eftir afplánun

Þóra á einn dreng sem er þriggja og hálfs árs. Hún lýsir lífinu með syninum sem því besta sem hún hafi upplifað. „Þetta var púslið sem vantaði til að gera mig heila,“ segir hún og ljómar.

Aðspurð segir hún lítinn stuðning vera af hálfu yfirvalda eftir afplánun. Eftir að hafa lokið afplánun 2014 fór hún á Vernd og svo á áfangaheimili á vegum Krossins. En raunverulega var ekkert sem greip hana, þetta voru leiðir sem hún leitaði sjálf að t.d. hjá félagsþjónustunni.

„Ég man að á Verndinni fór ég að vinna á Samhjálp. Ég var þá einnig hjá sálfræðingi á vegum Fangelsismálastofnunar en það var eitthvað sem ég sótti sjálf. Ég man ekki til þess að mér hafi verið boðin sú þjónusta.“

Tinna segir svipaða hluti, hún fór inn á Vernd en fátt annað hafi tekið við. Hún sóttist sjálf eftir aðstoð, fékk að hitta áfram ráðgjafa í geðheilsuteyminu en enginn hafi beint henni áfram.

„Það munaði engu að ég dytti í það þegar ég kom út. AA greip mig. Enginn annar.“ Tinna áréttar að líkt og við upphaf afplánunar vanti einnig upplýsingagjöf eftir að henni lýkur

„Maður upplifir bara að fólk hugsi að ég hafi komið mér í þetta sjálf og auðvitað gerði ég það en þetta snýst ekki um að vilja ekki taka ábyrgð heldur kann maður ekki að taka ábyrgð.“

Í dag er Tinna í náms- og starfsendurhæfingu hjá Hringsjá.

Þóra er að læra fíkniráðgjöf í símenntun við Háskólann á Akureyri, en hún hefur einnig lokið námi við Ráðgjafarskóla Íslands. Námið er ætlað þeim sem hafa hug á að starfa á t.d. geðsviði, áfangaheimilum og öldrunarheimilum, fyrir unglinga, fyrir áfengis- og fíkniefnaneytendur og fjölskyldur þeirra.

Eitt er að fást við áföllin en annað að fást við peningahliðina. Þóra segist enn skulda dóms- og sakarkostnað. Hún er á örorku, er einstæð móðir og ekki með bílpróf. Hún segist jafnframt ætla að sækja um að fá kostnaðinn niðurfelldan en að ekkert sé sjálfgefið í þeim efnum.

Hún notar tímann sem hún hefur aflögu í að starfa í þágu fanga en starfsemi Afstöðu og vettvangsteymisins sparar ríkinu háar fjárhæðir.

Tinna bendir á hve gott sé að eiga sterkt bakland. Þegar einstaklingar hafa verið í neyslu og endi svo í fangelsi sé ýmislegt sem þurfi að leggja út fyrir svo ekki sé talað um skuldirnar. Hún nefnir dæmi um tennurnar í sér, en þær sem eftir voru hafi allar verið skemmdar eftir neysluna.

„Ég er ótrúlega heppin með mömmu sem gat aðstoðað mig. Við erum flest að koma úr hörðum heimi og það er mjög erfitt ef baklandið er ekki gott.“

Aðspurðar hvernig þær horfi á reynsluna, segir Tinna: „Þetta var mjög erfitt, en gerði mér alveg hellingsgott líka. Ég er allavega enn edrú.“

Þóra segist ekkert reið þegar hún horfi til baka. „Þetta er bara sagan mín. Það er búið að skrifa söguna okkar. Ég er alveg viss um það. Ég hugsa oft þegar ég sé gamlar bekkjarsystur að ég hefði getað verið á sama stað og þær. En ég veit að það er ástæða fyrir öllu og við eigum bara að vera þar sem við erum. Það hefur komið mér hvað lengst að hugsa þetta bara þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert