Þórdís: „Svo sannarlega tilbúin í kosningar“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á leiðinni á ríkisstjórnarfundinn í morgun.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á leiðinni á ríkisstjórnarfundinn í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að bæði hún og Sjálfstæðisflokkurinn í heild sinni séu alltaf tilbúin í kosningar.

„Sjálfstæðisflokkurinn er alltaf tilbúinn í kosningar og ég er svo sannarlega tilbúin í kosningar,“ segir Þórdís Kolbrún, spurð að loknum ríkisstjórnarfundi hvort flokkurinn sé tilbúinn í kosningar ef til þess kemur.

„Mjög flókin pólitísk staða“

Spurð hvort hún telji ríkisstjórnina vera komna á endastöð í ljósi þess að tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki halda áfram í ríkisstjórninni með Vinstri grænum segir hún það vera pólitíska ákvörðun að taka hvort stjórnin sé komin á endastöð eður ei.

„Mér finnst það mikið alvörumál að taka að sér að sitja í ríkisstjórn fyrir samfélagið sitt og ég tek þeirri ábyrgð alvarlega og mæti til vinnu til að gera mitt besta í því. Það er komin upp mjög flókin pólitísk staða og formenn stjórnarflokkanna eru með það á sínu borði að finna út úr því. Þangað til að þau hafa sagt eitthvað til um það er það staðan,“ segir utanríkisráðherra.

Sigurður Ingi Jóhansson, Svandís Svavarsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir …
Sigurður Ingi Jóhansson, Svandís Svavarsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á Alþingi. mbl.is/Karítas

Forsætisráðherra hefur þingrofsheimild

Fannst þér vanvirðing hjá Svandísi [Svavarsdóttur innviðaráðherra] að tala um hvenær kosningar ættu að vera án þess að hafa rætt við Bjarna [Benediktsson forsætisráðherra] og Sigurð [Inga Jóhannsson fjármálaráðherra]?

„Það eru allir í sinni pólitík og hún að taka við flokki sem er ekki á góðum stað og að leita einhverra leiða til að finna út úr því,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Hún annars vegar svarar fyrir sín orð og sínar ákvarðanir og Bjarni sömuleiðis. Þingrofsheimild er forsætisráðherrans og þetta er samtal sem þau taka sín í milli og þau verða að svara fyrir það.“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson/mbl.is/Eyþór

Réttlæta áframhaldandi samstarf

Spurð hvort um forsendubrest sé að ræða þegar VG segjast ekki ætla að hleypa fleiri útlendingamálum í gegn og sjálfstæðismenn hafi efasemdir um að meira gerist í orkumálum með Vinstri grænum, segir hún ákveðin mál hafa verið sett á dagskrá þegar ákveðið var að halda stjórnarsamstarfinu áfram.

„Það voru þessi mál sem þú nefnir og sömuleiðis efnahagsmál. Þessi áhersluatriði réttlæta í rauninni áframhaldandi samstarf vegna þess að þau atriði sem ekki eru á dagskrá í þessu stjórnarsamstarfi eru mál sem eru mér mjög kær og ég myndi vilja að komandi kosningabarátta myndi snúast um. Ef þau mál eru ekki á dagskrá og það er fyrirfram búið að gefa það út að það verði ekki frekari árangur í þeim málum sem þetta stjórnarsamstarf gengur út á þá segir það sig sjálft að það er varla samkvæmt plani,“ svarar Þórdís Kolbrún.

„Á sama tíma erum við með þingmálaskrá þar sem eru frumvörp til þess að leggja fram breytingar til þess að ná frekari árangri og á meðan fólk tekur því alvarlega að sitja í ríkisstjórn og vinna að lausnum til þess að gera það þá hlýtur það að vera verkefnið. Ef menn ætla að stíga frá því er það niðurstaðan en sú ákvörðun hefur ekki verið tekin og aftur eru það formenn stjórnarflokkanna sem eru með það á sinni könnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka