Þung staða blasir við stjórnarsamstarfinu

Skárra væri það en að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins væri skoðanaglatt …
Skárra væri það en að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins væri skoðanaglatt fólk, segir Hildur. mbl.is/Árni Sæberg

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir þunga stöðu blasa við ríkisstjórnarsamstarfinu og að auðvitað hefði verið farið yfir stöðuna á stjórnarsamstarfinu á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.

Hildur ræddi við fjölmiðla að fundi loknum fyrir skömmu. 

Forystunni falið umboð

Var einhver sem viðraði það að slíta stjórninni á fundinum?

„Það voru margir kostir viðraðir við þessari stöðu, sem blasir við að er þung og verður að taka af yfirvegun og samtali um hvernig er best haldið á.“

Hverjar voru niðurstöðurnar varðandi það? Hvernig er best að halda áfram?

„Forysta flokksins hefur óskorað umboð þingflokksins til þess að leiða flokkinn áfram í hvað sem vill.“

Var algjör eining um það?

„Algjör eining um það. Algjör.“

Finnst þér persónulega rétt að halda þessu ríkisstjórnarsamstarfi áfram?

„Ég ætla ekki að tjá mig um það. Þessu var öllu saman velt upp eins og blasir við. Við erum stærsta stjórnmálaafl landsins. Við erum stærsti þingflokkurinn. Skárra væri það nú ef þingflokkurinn settist ekki niður og færi yfir þessa stöðu. Það er það sem að við gerðum. Þetta var gott samtal, það var heiðarlegt og eining um það að formaður og forysta flokksins tæki þetta áfram.“

Hildur Sverrisdóttir ræðir við fjölmiðla að fundi loknum.
Hildur Sverrisdóttir ræðir við fjölmiðla að fundi loknum. mbl.is/Arnþór

Hvers vegna var boðað til þessa skyndifundar í dag? Hvað olli því?

„Ekkert nema eðlilegt að stærsta stjórnmálaafl landsins setjist niður þegar svona staða er uppi sem að blasir við öllum.“

Nú hafa þingmenn og fyrrverandi þingmenn stigið fram og talið rétt að slíta stjórnarsamstarfinu í ljósi ályktunar landsfundar VG. Það hefur væntanlega verið ástæðan fyrir þessum fundi eða hvað?

„Það eru auðvitað allir frjálsir sinna skoðana og skárra væri það nú en að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins væri skoðanaglatt fólk. Á þessu eru ýmsar hliðar og ekkert nema eðlilegt um það að segja, en hér var algjör eining um að þetta yrði tekið áfram hjá forystu flokksins.“

Fólk ekki beðið um að tala í takt

Var fólk beðið um að tala meira í takt?

„Fólk var ekki beðið um neitt slíkt, en að öðru leyti er það sem gerist á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins trúnaðarmál.“

Það eru stór mál sem þarf að ræða, eins og til dæmis útlendingamál, var það tekið fyrir á þessum fundi, þá ásteytingarsteinn milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins?

„Það er algjörlega skýrt í mínum huga að þetta hefur alltaf snúist um hvernig við, Sjálfstæðisflokkurinn, getum best tryggt að við náum árangri með þau mál sem liggja fyrir og við verðum að klára fyrir þjóðina.“

Voru einhverjir úrslitakostir settir fram, sem þið ætlið að leggja fram fyrir hina stjórnarflokkana, um mál sem þið viljið koma áfram á þessu þingi?

„Ég held að það sé rétt að ég tjái mig ekki um einstaka atriði hér og nú.“

Var rætt hvenær yrði gengið til kosninga? Í vor eða fyrr?

„Það var ekki rætt í smáatriðum en að öðru leyti er það trúnaðarmál það sem gengur fyrir á þessum fundum.“

Frá fundinum í Valhöll fyrr í dag.
Frá fundinum í Valhöll fyrr í dag. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert