Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út að beiðni lögreglunnar á Austurlandi vegna gruns um að tveir hvítabirnir séu á ferð um hálendið við Laugarfell, norðaustan við Snæfell.
Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
Þyrlan átti að vera kominn á staðinn um klukkan sjö.
Að því er Ríkisútvarpið greinir frá barst tilkynning frá tveimur erlendum ferðamönnum um að þeir hefðu séð tvo hvítabirni á staðnum.
Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Austurlandi, hafa engin ummerki um hvítabirni sést í leit lögreglunnar á svæðinu. Einnig voru vefmyndavélar Landsvirkjunar kannaðar og sáust engar vísbendingar um hvítabirni sömuleiðis.
„Við bíðum núna eftir þyrlunni sem getur farið yfir stórt svæði á skömmum tíma og er búin hitamyndavél. Ef ekkert finnst hjá þyrlunni þá verður staðan metin og ákvörðun um framhald leitar tekin í kjölfarið.“
Fréttin hefur verið uppfærð.