Lögreglan á Austurlandi hefur rætt við um tíu manns sem voru á vettvangi þegar banaslysið varð í Stuðlagili fyrr í vikunni og er rannsókn málsins yfirstandandi.
Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Austurlandi, virðist liggja nokkuð ljóst fyrir hvað gerðist.
„Það er verið að ræða við fólk og reyna að ná þessari heildarmynd. Sú vinna hófst í beinu framhaldi af atburðinum og er ekki lokið,“ segir Kristján Ólafur, sem vill ekki gefa upp hverrar þjóðar konan var.
Eiginmaður konunnar, sem var með henni í Stuðlagili, var sinnt af presti á staðnum skömmu eftir slysið. „Hann fékk sálgæslu og þá aðstoð sem var hægt að veita honum í þessum hörmulegu aðstæðum,“ segir Kristján Ólafur, sem bætir við að maðurinn sé ekki lengur staddur fyrir austan.
Svæðið þar sem slysið varð hefur ekki verið girt af, segir hann jafnframt aðspurður.
Að sögn Kristjáns Ólafs hefur almannavarnanefnd Austurlands verið að kortleggja og áhættumeta ferðamannastaði í fjórðungnum. „Þetta er eitthvað sem almannavarnanefndin hefur haft áhyggjur af í talsverðan tíma,” segir hann.
„Ferðamannastöðum í umdæminu hefur fjölgað og ferðamönnum að sama skapi. Við gerum okkur vonir um að áhættumatið verði komið næsta sumar. Sú vinna er í gangi og miðar vel.“
Fram kemur í fundargerð almannavarnanefndar Austurlands frá því í ágúst síðastliðnum að búið sé að safna upplýsingum um helstu ferðamannastaði, þ.e. Stuðlagil, Hengifoss, Laugavalladal, Hafrahvammagljúfur, Fardagafoss, Stórurð og Rjúkandi. Meðal annars sé til skoðunar að gera þrívíddarmynd af þeim.
„Stefnt er að því að gera áhættumat í framhaldinu fyrir hvern stað og hugsanleg viðbrögð við þeim,” segir í fundargerðinni, sem var skráð 19. ágúst.