Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) mælir með því að flugrekendur vakti gæði lofts í loftförum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu nefndarinnar sem opnaði svokallaða þemarannsókn vegna fjölda tilkynninga um atvik vegna veikinda fólks úr áhöfnum Boeing 757 og 767 loftfara Icelandair.
Tekið er fram að fólkið hafi fundið ýmist fyrir einkennum í flugi og hafi sum þeirra átt við langvinn veikindi að stríða í kjölfar atvikanna.
Í tengslum við þemarannsóknina skoðaði RNSA sambærileg atvik um veikindi fólks í flugáhöfnum sem tilkynnt höfðu verið til Samgöngustofu, af öllum flugrekendum fyrir allar gerðir loftfara, á 10 ára tímabili árin 2011-2020 og reyndust þau 216 talsins.
Meðal þess sem var skoðað, var hvort tími sólarhrings og flug á mismunandi svæðum tengdust atvikunum. Reyndust flest atvikin eiga sér stað í morgunflugi frá Íslandi og til Evrópu og þar á eftir kvöld- og næturflug frá Norður-Ameríku og til Íslands.
„Rannsóknin leiddi í ljós að í sumum þessara átta tilfella voru atvikin hugsanlega af völdum skerts loftflæðis og hitastjórnunar í loftræstikerfi vegna þess að loftrör höfðu aftengst og/eða voru brotin.
Í öðrum tilfellum var talið að atvikin mætti rekja til skorts á loftgæðum, sem hugsanlega væri hægt að rekja til mengandi efna. Þar sem engin loftsýni voru tekin á flugi þegar atvikin áttu sér stað, getur RNSA ekki staðfest hvort að viðkomandi áhafnarmeðlimir hafi orðið útsettir fyrir mengandi efnum í flugunum er atvikin urðu,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni segir jafnframt, að skoðað hafi verið hvort að einhverjar flugvélategundir skæru sig úr og reyndist svo vera.Flest atvikin reyndust vera á Boeing 757, en einnig Boeing 767.
„Reyndist fjöldi atvika á Boeing 757 og Boeing 767 vera meiri samanborið við aðrar flugvélategundir sem reknar voru af íslenskum flugrekendum á þessu tímabili, jafnvel að teknu tilliti til flotastærðar.“
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir jafnframt, að í tveimur tilfellum hafi RNSA fengið upplýsingar um veikindi áhafnar þegar viðkomandi flugvél var enn á flugi. Reyndist mögulegt að taka á móti þessum flugvélum þegar þær lentu og framkvæma vettvangsrannsókn um borð strax eftir lendingu.
Voru yfirborðssýni tekin um borð í báðum tilfellum og fundust TCP2-efnasambönd á yfirborðsflötum um borð.
RNSA telur að hugsanlega mætti rekja TCP-efnasambönd í farþega- og áhafnarrými til smurolíu á hreyfli sem komist inn í rýmið með afhleypilofti frá hreyflum. Einnig er hugsanlegt að þessi efnasambönd komi frá aukaaflsstöð (APU) eða frá flugvallarumhverfi.
Þar sem engin hreyfill eða aukaaflstöð voru skoðuð í þessari rannsókn, þá gat RNSA ekki
staðfest hvort efnasamböndin kæmu þaðan. Einnig er ekki vitað hvort að efnasamböndin
komu frá einstaka atburði eða hvort að þau hafi safnast yfir langan tíma.
Flugrekandinn hefur þegar gripið til margs konar aðgerða í kjölfarið á atvikunum. Einnig hefur flugrekandinn unnið markvisst að endurnýjun flugflotans, segir í skýrslunni.
Hefur sambærilegum tilkynntum atvikum um veikindi áhafnarmeðlima fækkað mikið í kjölfarið. Á árunum 2021-2024 hafa einungis 14 sambærileg atvik verið tilkynnt, segir enn fremur.