Engir hvítbirnir fundust í lokaleit lögreglunnar á Austurlandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Tveir erlendir ferðamenn tilkynntu síðdegis í gær að þeir hefðu séð tvo hvítabirni á svæðinu við Laugafell norðaustur af Snæfelli, nærri Kirkjufossi.
Ákveðið var að fara í lokaleit á svæðinu í dag með dróna til þess að kanna hvort för sæjust í snjó eða hjarni er birnirnir áttu að hafa sést.
„Lögreglan rak spor tilkynnenda mjög nákvæmlega. Engin ummerki voru þar að finna um ferðir hvítabjarna, sem hefði átt að blasa við ef slík dýr hefðu verið þar á ferð,“ að því er segir í tilkynningunni.
„Lögreglan telur að þessu sögðu, að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands sem hún hefur verið í nánu sambandi við vegna þessa verkefnis, fullleitað að sinni.“
Leit verður haldið áfram komi fram frekari vísbendingar.