Fyndnasta sem ég veit er gömul kerling með veski!

Helga Braga Jónsdóttir bjó sig mjög vel undir hlutverk sitt …
Helga Braga Jónsdóttir bjó sig mjög vel undir hlutverk sitt í Topp 10 Möst. mbl.is/Eyþór

„Ég er alveg til í að leika fullt af gömlum kerlingum í bíó, skemmtilegar og alvarlegar. Fyndnasta sem ég veit er gömul kerling með kvenveski!“

Þetta segir Helga Braga Jónsdóttir sem fékk sitt stærsta hlutverk í kvikmynd til þessa korteri fyrir sextugsafmælið í Topp 10 Möst, sem komin er í kvikmyndahús. 

„Ég kvíði engu. Það fylgir ákveðið frelsi aldrinum; maður er auðvitað ekki lengur að leika ungu alvarlegu stúlkuna eða kyntáknið, kannski frekar mæður og ömmur ... en ömmur geta auðvitað líka verið sexí. Það felst ákveðinn sigur í því að ná þessum aldri, það gera það ekki allir. Fyrir það er ég þakklát. Fólk gerir sér grein fyrir því með aldrinum að lífið er gjöf og ekki er verra að geta notið þess. Það er ígildi lottóvinnings,“ segir hún. 

Mjög intró-manneskja

Þessi þjóð þekkir Helgu Brögu best sem mikinn stuð- og orkubolta. Í Topp 10 Möst leikur hún hins vegar lágstemmda, innhverfa og samfélagslega ósýnilega persónu. Hvernig ætli henni hafi gengið að tengja við hana? 

„Mjög vel,“ svarar hún strax. „Fólk trúir því kannski ekki en í grunninn er ég mjög intró-manneskja. Hitt er bara vinnan mín. Ég er einkabarn móður minnar, sem ól mig upp, og það fór alls ekki mikið fyrir mér í æsku; ég lék mér með póstkort og var í mínum draumaheimi. Uppáhaldsskemmtistaður okkar mömmu var bókasafnið á Akranesi og það hefur ekkert breyst. Mín mesta slökun er að sitja bara og lesa. Síðan varð til eitthvert alter egó þegar ég fann að ég átti auðvelt með að skemmta fólki og fá það til að hlæja.

Vill fara á djúpið

Helga Braga hefur heilmikið stúderað stjörnuspeki. Hún leigði um tíma með stelpu sem var stjörnuspekingur og tók fólk í tíma á heimili þeirra, þannig að það voru alltaf stjörnuspekibækur á borðstofuborðinu sem Helga lagðist yfir.

Tanja Björk Ómarsdóttir og Helga Braga í Topp 10 Möst.
Tanja Björk Ómarsdóttir og Helga Braga í Topp 10 Möst.


„Ég er þannig gerð að ef ég sé bækur þá bara les ég þær. Sjálf er ég sporðdreki, rísandi krabbi, er viðkvæm, með innhverfa orku og vil fara á djúpið. Það gerði ég einmitt fyrir þetta hlutverk, fannst Arna (persónan í Topp 10 Möst) eiga það inni hjá mér. Sem betur fer er ég ekki sjálf haldin þunglyndi en fór mikið í þær pælingar af þessu tilefni enda á ég vini sem bæði hafa tekið sitt líf og gert tilraunir til þess. Þetta er með því erfiðasta sem ég hef gert en í svona verkefnum dugar skammt að skauta á yfirborðinu, maður verður að fara á djúpið. Þar býr fegurðin.“

Ítarlega er rætt við Helgu Brögu um Topp 10 Möst og leikferilinn í víðu samhengi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert