Getur sprungið hvenær sem er

Bjarni Benediktsson fyrir utan Valhöll í gær að loknum þingflokksfundi.
Bjarni Benediktsson fyrir utan Valhöll í gær að loknum þingflokksfundi. mbl.is/Arnþór

Það er óvenjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn boði til þingflokksfundar með skömmum fyrirvara líkt og gert var í gær. Það sýnir að spennan innan ríkisstjórnarinnar og flokksins hefur farið vaxandi síðustu daga og er þá eðlilegt að flokkurinn hittist og ræði málin. 

Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur í samtali við mbl.is. 

„Hann [Bjarni Benediktsson] er að gera tvennt. Annars vegar vill hann fá hreinskiptar umræður innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins, þar sem sumir þingmenn hafa viljað slíta strax. Síðan er hann að senda Vinstri grænum skilaboð um að Sjálfstæðismenn séu líka tilbúnir að sýna ákveðni.“

Fundur boðaður með skömmum fyrirvara

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í Valhöll síðdegis í gær. Fundurinn var boðaður með skömmum fyrirvara. 

Óánægja hefur verið á meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins í kjölfar þess að þingmenn Vinstri grænna vilja ekki gera meira í útlendingamálum og orkumálum.

Óli Björn Kárason og Jón Gunnarsson hafa sagt erindi ríkisstjórnarinnar vera komið á endastöð vegna þessa. 

Ólafur Þ.Harðarson segir eðlilegt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ræði stöðuna sem …
Ólafur Þ.Harðarson segir eðlilegt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ræði stöðuna sem nú er. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá ríkir einnig óánægja um að Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, skyldi hafa sagt opinberlega að hún vildi að kosið yrði í vor, án þess að hafa rætt við formenn hinna stjórnarflokkanna. 

Þegar ríkisstjórnin var endurnýjuð í vor undir forystu Bjarna var sagt að erindi ríkisstjórnarinnar væri að takast á við efnahagsmálin, útlendingamálin, orkumálin og breytingar á örorkulífskerfinu.  

Láta reyna á samstarfið í þinginu

Spurður hvernig hann sjái fyrir sér næstu daga segir Ólafur líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni láta reyna á stjórnarsamstarfið í þinginu, til að sjá hvort Vinstri græn standi við orð sín og stöðvi frumvörp um til dæmis útlendingamál eða orkumál. 

„Hins vegar er spennan og óánægjan orðin slík að það getur alveg sprungið hvenær sem er.“

Ólafur telur líklegast að formenn stjórnarflokkanna muni reyna að starfa saman þar til eftir áramót, það sé að mörgu leyti hentugra fyrir flokkana. 

„Allir stjórnarflokkarnir standa mjög illa í skoðanakönnunum og formenn stjórnarflokkanna gera sér vonir um að efnahagsástandið fari batnandi og það gæti híft fylgi stjórnarflokkanna aðeins upp,“ segir Ólafur.

Hann bætir við að ef formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, hugsi sig til hreyfings þá myndi flokkurinn líklega vilja halda landsfund og kjósa nýjan formann áður en boðað yrði til kosninga. 

Nær útilokað að kosið verði eftir ár

Aðspurður segir hann það nær útilokað að gengið yrði til kosninga næsta haust.

„Eftir yfirlýsingu Svandísar held ég að það sé nær útilokað að það verði kosið í haust. Hvort það yrðu kosningar fljótlega eftir áramót, í mars eða apríl, jafnvel maí eða lok júní, er bara opin spurning. Ef stjórnin kemst í gegnum þennan stórsjó sem hún er í augnablikinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert