Hélt að tilkynning um inngöngu væri ruslpóstur

Sigurður Reynir við athöfnina í Harvard-háskóla.
Sigurður Reynir við athöfnina í Harvard-háskóla. Ljósmynd/Bandaríska lista- og vísindaakademían

Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur og rannsóknaprófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans, segir það hafa komið ánægjulega á óvart að fá inngöngu í Bandarísku lista- og vísindaakademíuna. Hann hafi raunar fyrst haldið að um ruslpóst væri að ræða þegar tilkynningin barst.

Akademían er ein sú virtasta í Bandaríkjunum. Hún var sett á legg árið 1780 en meðal þeirra sem hafa fengið inngöngu eru George Washington, fyrsti Bandaríkjaforsetinn, og eðlisfræðingurinn Albert Einstein.

Innsetningarathöfnin fór fram í Sanders Theatre við Harvard-háskóla 21. september sl. Um 200 Bandaríkjamenn fengu inngöngu og um 20 frá öðrum löndum. Hverjum var heimilt að taka með sér þrjá gesti og áætlar Sigurður Reynir að um 700 manns hafi verið í salnum.

Stendur í þakkarskuld

„Dagskráin tók þrjá daga. Hún hófst með veislu á föstudagskvöldinu þar sem forseti akademíunnar bauð alla velkomna og kynnti um leið að akademían myndi hér eftir heiðra minningu látins fólks sem hefði verðskuldað að fá inngöngu á sínum tíma en ekki fengið vegna kynferðis eða litarháttar. Nú var kynjaskiptingin milli nýrra félaga í fyrsta sinn nokkurn veginn jöfn. Ég átti ekki von á þessum heiðri. Ég stend í mikilli þakkarskuld við frábæran kennara, Hans P. Eugster, sem ég hafði við Johns Hopkins-háskóla 1980-1985, og samstarfsmenn og doktorsnema mína,“ segir hann.

Sigurður Reynir var jafnframt nýverið útnefndur félagi í Bandarísku þjóðarakademíunni í raunvísindum og verður innsetningarathöfnin í Washington næsta vor. Ásamt honum hafa tveir Íslendingar fengið inngöngu í þessar akademíur: nafni hans Sigurður Helgason (1927-2023) stærðfræðingur við MIT, í lista- og vísindaakademíuna, og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í þjóðarakademíuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert