Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kallar eftir því að Vinstri græn endurskoði afstöðu sína í útlendingamálum og virði samkomulag stjórnarflokkanna í málaflokknum. Ef ekki sé ekkert annað í stöðunni en að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og boða til kosninga.
Viljinn greinir frá þessu og kemur þar fram að Bjarni hafi sagt þetta á fundi Sjálfstæðismanna í Garðabæ í dag.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði í Valhöll í gær um stöðu ríkisstjórnarinnar og ræddi Bjarni við mbl.is að fundi loknum.
„Við erum að ræða þessa stöðu vegna þess að það eru efasemdir um getu stjórnarinnar til að klára þingmálin í vetur. Það er alvarlegt mál og þess vegna komum við saman hér í dag,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is í gær.
Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og nýkjörinn formaður Vinstri grænna, hefur sagt að frumvörp um breytingar á útlendingalögum eigi ekki erindi inn á Alþingi. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur sagst ósammála Svandísi.
Þá ályktaði landsfundur Vinstri grænna að Alþingiskosningar færu fram í vor en þær eiga að fara fram næsta haust. Svandís hefur tekið undir ályktunina.
Ekki náðist í Bjarna við gerð fréttarinnar.