Kalli eftir endurskoðun af hálfu VG

Mikil spenna er í stjórnarsamstarfinu.
Mikil spenna er í stjórnarsamstarfinu. mbl.is/Arnþór

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kallar eftir því að Vinstri græn endurskoði afstöðu sína í útlendingamálum og virði samkomulag stjórnarflokkanna í málaflokknum. Ef ekki sé ekkert annað í stöðunni en að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og boða til kosninga. 

Viljinn greinir frá þessu og kemur þar fram að Bjarni hafi sagt þetta á fundi Sjálfstæðismanna í Garðabæ í dag.

Efasemdir um getu ríkisstjórnarinnar

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði í Valhöll í gær um stöðu ríkisstjórnarinnar og ræddi Bjarni við mbl.is að fundi loknum.  

„Við erum að ræða þessa stöðu vegna þess að það eru efa­semd­ir um getu stjórn­ar­inn­ar til að klára þing­mál­in í vet­ur. Það er al­var­legt mál og þess vegna kom­um við sam­an hér í dag,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is í gær. 

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og nýkjörinn formaður Vinstri grænna, hefur sagt að frumvörp um breytingar á útlendingalögum eigi ekki erindi inn á Alþingi. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur sagst ósammála Svandísi. 

Þá ályktaði landsfundur Vinstri grænna að Alþingiskosningar færu fram í vor en þær eiga að fara fram næsta haust. Svandís hefur tekið undir ályktunina.

Ekki náðist í Bjarna við gerð fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert