Látinn frændi birtist í andliti barnsins

Guðrún, móðursystir Jóns Ársæls, var að baða hann fyrir skírnarathöfn þar sem gefa átti honum nafnið Bjólfur í höfuð landnámsmannsins í Seyðisfirði, þegar undur gerðust. 

„Skyndilega breytist andlitið á mér í andlit náins frænda og vinar sem hafði farist með Dettifossi þegar hann var skotinn niður í stríðinu. Ég er allt í einu orðinn Jón frændi Bjarnason. Guðrún móðursystir mín æpir upp og mamma kemur og það er bara ákveðið að þarna sé um kraftaverk að ræða. Hér hafi verið vitjað nafns, sem kallað var. Bjólfsnafninu var vikið fyrir Jónsnafnið,“ upplýsir Jón Ársæll Þórðarson í Dagmálum.

Æskuminningar Jóns Ársæls bera titilinn Ég átti að heita Bjólfur. Sagan sem Jón segir í þættinum er hluti af upprifjun hans á æsku sinni austur á fjörðum og síðar meir í Reykjavík.

Sagan af kraftaverkinu sem hér er rakin hefur lifað í munnmælum í fjölskyldu Jóns Ársæls allt til þessa dags að hann hefur fært hana í letur í bók sinni.

Tröllafjall við Reyðarfjörð. Sagan sem Jón segir í þættinum er …
Tröllafjall við Reyðarfjörð. Sagan sem Jón segir í þættinum er hluti af upprifjun hans á æsku sinni austur á fjörðum. mbl.is/RAX

Mannlífsrannsóknir til áratuga

Jón ræðir bókina, mannlífsrannsóknir sínar til áratuga og hina eilífu innri baráttu. Þegar hann var ungur maður þráði hann ekkert heitar en að verða sköllóttur eins og pabbi. Þegar sú stund rann svo upp að hárið fór að þynnast snerist þráin upp í eftirsjá.

Glíma Jóns við ellina sem bæði er andleg og líkamleg ber á góma og hann er ósáttur við að vera að eldast. Þar hefur hann leitað til eins öflugasta geðlæknis landsins til að ræða líðan sína. Barátta við Elli kerlingu er Jóni vel kunn og vitnar hann sjálfur til þess er sá okkar sterkasti, Þór náði að koma henni niður á kné, en neðar fór hún ekki. 

Hann segist full meðvitaður um að elli læknist ekki en umræðan sé bæði líknandi og læknandi.

Sjónvarpsmaðurinn sem gerði fimm hundruð þætti um Íslendinga undir heitinu Sjálfstætt fólk er gestur Dagmála um helgina. Þátturinn er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert