Lögreglan á Austurlandi mun gera lokaleit að hvítabjörnum sem tilkynnt var um í gær. Eiga þeir að hafa sést við Laugafell norðaustur af Snæfelli.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Lögregla og Landhelgisgæsla fundu engin ummerki um hvítabirni í gær. Leit var fyrirhuguð að nýju nú í morgunsárið en þyrla var ekki tiltæk.
„Lokaleit verður því gerð með dróna og þá sérstaklega litið til þess hvort för sjáist í snjó eða hjarni á þeim slóðum er birnirnir áttu að hafa sést,“ segir í tilkynningunni.