Minnast þeirra sem fallið hafa frá

Styrkleikarnir byrjuðu klukkan 09:00 í morgun.
Styrkleikarnir byrjuðu klukkan 09:00 í morgun. Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Styrkleikar Krabbameinsfélagsins hófust kl. 09:00 í morgun og munu standa yfir í sólarhring. Fara styrkleikarnir fram á Úlfarsfelli þar sem fólki gefst tækifæri á að sýna stuðning í verki við þá sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Styrkleikarnir fara þannig fram að þátttakendur skiptast á að ganga í heilan sólarhring sem er táknrænt fyrir að það fæst engin hvíld frá krabbameini og byrjuðu leikarnir í morgun þar sem gengið var frá bílastæðinu ofan við byggðina í Úlfarsárdal.

Þar er Krabbameinsfélagið með aðstöðu hluta af deginum og býður upp á heitt kaffi og kakó.

Er þetta í fyrsta skiptið sem Styrkleikarnir fara fram á fjalli en áður hafa þeir verið haldnir á Selfossi, Egilsstöðum og á Suðurnesjum.

Þátttakendur skiptast á að ganga í heilan sólarhring.
Þátttakendur skiptast á að ganga í heilan sólarhring. Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Minnast þeirra sem fallið hafa frá

„Þetta er fyrsta fjallið. Venjulega hefur verið gengið á jafnsléttu,“ segir Ása Sigríður Þórisdóttir, kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins.

Hvetur hún alla til að mæta og taka þátt en tekur fram að fólk skuli klæða sig eftir veðri, vera í góðum skóm, vera með fullhlaðinn síma og muna eftir vasaljósi.

Kl. 20:00 í kvöld er svo fólk hvatt til að sameinast á bílastæðinu við fellið og ganga saman leið sem myndar slaufu til stuðnings þeim sem greinst hafa með krabbamein á lífsleiðinni.

„Þegar upp á Úlfarsfell er komið munum við kveikja á kertum sem þátttakendur geta keypt til stuðnings Krabbameinsfélagsins til að minnast þeirra sem fallið hafa frá og þakka fyrir þau sem eru enn með okkur,“ segir í tilkynningu Krabbameinsfélagsins.

Fer fram í meira en 30 löndum

Gengið verður á klukkutíma fresti alveg fram að kl. 08:00 í fyrramálið en þá verður haldið í síðustu ferðina og verður svo Styrkleikunum slitið kl. 09:00.

Fyrstu íslensku Styrkleikarnir fóru fram á Selfossi í apríl 2022 en um er að ræða alþjóðlegan viðburð sem fer árlega fram á yfir 5.000 stöðum í meira en 30 löndum á heimsvísu.

Hægt er að styrkja Krabbameinsfélagið með því að heita á einstaklinga og hópa hér.

Hér má svo sjá hvaða klukkutímar eru lausir og geta einstaklingar í kjölfarið skráð sig á þann tíma sem hentar hverjum og einum.

Kl. 20:00 í kvöld er fólk hvatt til að sameinast …
Kl. 20:00 í kvöld er fólk hvatt til að sameinast á bílastæðinu við fellið og ganga saman leið sem myndar slaufu til stuðnings þeim sem greinst hafa með krabbamein á lífsleiðinni. Ljósmynd/Krabbameinsfélagið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert