Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út laust eftir hádegi í dag til þess að dæla upp vatni sem lak inn í bílakjallara í Skeifunni í Reykjavík. Engar skemmdir urðu vegna lekans.
Að sögn Sverris Björns Björnssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, var dælt upp einhverjum tonnum af vatni. Veitur séu enn á vettvangi að kanna orsök lekans.
Í tilkynningu á vef Veitna segir að lokað hafi verið fyrir heitt vatn á svæðinu í kring á meðan að starfsfólk Veitna og slökkviliðið voru að störfum. Ekki liggur fyrir hvort heitt vatn sé komið aftur á.
„Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Húseigendum er bent á að huga að innanhússkerfum,“ segir í tilkynningunni.