„Þetta verður töluverður slagur“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ávarpaði flokksmenn fyrr í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ávarpaði flokksmenn fyrr í dag. Ljósmynd/Sigmundur Sigurgeirsson

„Í rauninni er þessi ríkisstjórn fallin. Ríkisstjórn getur ekki setið lengi áfram eftir að það er orðið augljóst að þar innanborðs eru menn ekki sammála um neitt en sitja eingöngu til að sitja,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í ávarpi sínu á flokksráðsfundi flokksins. 

Nefndi formaðurinn að flokkurinn myndi fara strax í að leggja fram ný útlendingalög, kæmist hann í ríkisstjórn.

Þá sagði Sigmundur flokkinn hafa verið búinn að tala lengi um að breytingar þyrfti í útlendingamálum og er hann gagnrýninn á aðra flokka sem hann sagði einfaldlega hafa skipt um skoðun á málefninu vegna þess að kjósendur landsins séu búnir að fá nóg.

Breyta þurfi menntakerfinu

„Við munum fara yfir það hvernig íslenska menntakerfið virkar og við munum breyta því. Það verður held ég bara að viðurkennast að það þarf að breyta því. Eitthvað er ekki í lagi,“ sagði Sigmundur og nefndi jafnframt að Ísland væri með eitt dýrasta grunnskólakerfi í heimi en á sama tíma einn slakasta árangur í Evrópu og að þörf væri á aðgerðum.

Þá þyrfti að leita til fólks sem myndi þora að gera breytingar.

„Ekki til þeirra sem vilja halda óbreyttu ástandi og skilgreina hlutina upp á nýtt. Ég nefni sem dæmi Jón Pétur Zimsen sem hefur töluvert tjáð sig um þetta að undanförnu. Slíkan mann ætti að fá í að fara yfir allt kerfið og meta hvernig við getum gert þetta betur. Hvernig nýtum við fjármagnið betur, menntum börnin betur og búum þau betur undir lífið.“

Leiddi formaðurinn næst umræðuna að heilbrigðiskerfinu og sagði hann það ekki þurfa niðurskurð.

„Það þarf miklu frekar uppskurð á kerfinu því að heilbrigðiskerfið virkar ekki sem skyldi,“ sagði Sigmundur og hélt áfram:

„Það er endalaust bætt fjármagni í kerfið. Á hverju einasta ári. Svo eru stjórnmálamenn spurðir um alla biðlistana og aukinn vanda á ýmsum sviðum heilbrigðismála. Og hvert er svarið? Jú, við erum að standa okkur af því að við settum þetta mikinn pening í þetta í fyrra og jukum þetta mikið við síðast.“

Hverfa þurfi frá borgarlínunni

Þá beindi formaðurinn spjótum sínum að borgarlínunni í ávarpi sínu. Kallaði hann verkefnið vitleysu og að hverfa þyrfti frá henni. Sagði hann að verkefnið yrði hundruða milljarða verkefni ef haldið yrði áfram.

Nefndi hann að verið væri að horfa fram hjá straumi tímans og í staðinn verið að innleiða 19. aldar borgarlínukerfi með gífurlegum kostnaði.

„Við þurfum að skoða það allt saman upp á nýtt. Við þurfum að leggja niður þetta fyrirbæri sem kallar sig Betri samgöngur. Þar fer nú starfsmönnum fjölgandi en það eru aðallega einhverjir kynningarfulltrúar til þess að reyna að útskýra fyrir fólki af hverju þetta þurfi að vera til yfirhöfuð,“ sagði formaðurinn og bætti við að ríkið ætti þá að endurheimta Keldnalandið og ráðstafa því þannig að hægt væri að byggja fleiri íbúðir.

„Gefa fólki kost á því að eignast heimili og nýta ávinninginn í að bæta vegakerfi annars staðar.“

Þá sagði formaðurinn að nái flokkurinn í ríkisstjórn yrði farið í virkjanir og framleiðslu á orku. 

„Orka keyrir áfram allt hagkerfið. Allt samfélagið. Það er ekki hægt að auka framleiðslu og verðmætasköpun og lífskjör nema með orku. Þið getið séð þetta ef þið skoðið línurit við samhengi á milli orkuframleiðslu og velferðar,“ sagði Sigmundur og nefndi um leið að ekkert ríki með litla orku byggi við velferð.

Hinir muni lofa upp á nýtt

Miðflokkurinn hefur notið góðs gengis í könnunum að undanförnu en tók þó Sigmundur fram að engu væri tekið sem gefnu.

„Þetta verður töluverður slagur, hvort sem kosningarnar verða núna í nóvember eða næsta vor eða hvort það verður skrúfuð saman einhver ný furðustjórn sem skröltir fram á næsta haust.“

Sagði hann að þegar fundi flokksins myndi ljúka í dag tæki við kosningabarátta og þar myndi flokkurinn vera til fyrirmyndar og að fólk myndi sjá að flokkurinn snúist um málefnin og það að gera hlutina heiðarlega.

„En tökum engu sem gefnu. Hinir munu lofa upp á nýtt. Þeir munu segjast ætla að gera sömu hluti og þeir sögðu fyrir síðustu kosningar og þarsíðustu kosningar og kosningarnar þar á undan.

Þeir verða ófeimnir við það í trausti þess að fólk hafi gleymt því hverju þeir lofuðu áður og gerðu svo í raun, eða gerðu ekki. Það mun þurfa að draga þetta fram. En vitið til. Þeir munu treysta á það að kjósendur láti glepjast af endurnýjuðum óframkvæmdum loforðum og þá er það okkar hlutverk að draga það fram.“

Snýst um framtíðina

Þá sagði formaðurinn að atburðir síðustu daga myndu sína hve mikið mikilvægi Miðflokksins sé.

„Ég held að það verði bara skýrara með hverjum deginum núna og mikilvægi þess að atkvæðin dreifist ekki um of á milli flokka sem ganga meira út á umbúðirnar heldur en innihaldið og það að vera í ríkisstjórn bara til að vera í ríkisstjórn.

Við skulum nýta hvern dag sem þessi stefnulausa og í raun líflausa ríkisstjórn tórir að þessum fundi loknum.“

Sagði formaðurinn flokkinn vera mótvægið við sýndarmennskuna í pólitík og að flokkurinn vilji tryggja að þegar kjörtímabili ljúki muni kjósendur flokksins verða stoltir.

„Þetta snýst ekki bara um kosningar 2024. Þetta snýst líka um kosningar 2028 og alla framtíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert