Á ekki orð yfir ummælum borgarstjóra

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri …
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur. Samsett mynd

„Ég trúði bara ekki mínum eigin eyrum. Í alvöru talað,“ segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokksfólksins, um ummæli sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur lét falla um kennara á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á fimmtudag.

„Mér finnst einhvern veginn öll „statistic“ bara um skólana okkar benda til þess að við séum að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar,“ sagði Einar á ráðstefnunni.

Kennarasamband Íslands deildi myndbandsupptöku af ummælunum á Facebook-síðu sinni og hafa þau vakið mikla athygli.

Kolbrún, sem stödd var á ráðstefnunni, segir það ótrúlegt að borgarstjórinn hafi látið ummælin falla fyrir framan allan þann fjölda sem var á staðnum.

„Ég bara á ekki orð. Ég er náttúrulega mjög upptekin af því að styðja við kennara og mér finnst þeir vera að vinna afrek á hverjum einasta degi upp til hópa.“

Vill ekki að borgarstjórinn sé með svona hugsun

Hefurðu heyrt í kennurum eða telurðu að það séu hræringar innan stéttarinnar eftir ummælin?

„Já, klárlega. Ég er á ýmsum síðum og auðvitað sem sálfræðingur og skólasálfræðingur líka til tíu ára þá hef ég alveg ágætis tengsl við þennan geira.“

Finnst þér að hann ætti að stíga fram og biðjast afsökunar á ummælunum?

„Ef þetta væri ég þá myndi ég gera það. Ef að ég hefði verið svona illa stemmd þennan dag og misst eitthvað svona út úr mér. Ekki nema að þetta sé bara hans sannfæring. Ég veit það ekki.“

Þá segir hún málið ekki snúast um að taka borgarstjórann sérstaklega fyrir.  

„[...] en það eru takmörk og auðvitað vill maður að borgarstjórinn sé ekki með svona hugsun. Ef svo er þá hlýtur það að skila sér inn í leiðtogahlutverkið og það er bara ekki gott.“   

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka